sunnudagur, 18. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Siggi Matt fjórfaldur Reykjavíkurmeistari

7. maí 2012 kl. 15:44

Háfeti frá Úlfsstöðum er glæsilegur töltari, knapi Eyjólfur Þorsteinsson.

Sigursteinn og Alfa mættu ekki í töltúrslit

Umfangsmiklu Reykjavíkurmóti Fáks í hestaíþróttum lauk í gær með úrslitum í hringvallargreinum, fjórgangi, fimmgangi og tölti. Eyjólfur Þorsteinsson stóð sig vel, varð Reykjavíkurmeistari í tölti á Háfeta frá Úlfsstöðum og í fjórgangi meistara á Hlekk frá Þingnesi. Sigursteinn Sumarliðason, sem var langefstur eftir forkeppnina á Ölfu frá Blesastöðum, mætti ekki í úrslitin.

Sigurður V. Matthíasson var í miklu stuði  á mótinu, varð tvöfaldur Reykjavíkurmeistari í fimmgangi; í fyrsta flokki á Hring frá Fossi og í meistaraflokki á Mætti frá Leirubakka, og einnig í gæðingaskeiði; í meistaraflokki á Birtingi frá Selá og í 1. flokki á Hring frá Fossi. Glæsilegur árangur það.

Arna Ýr Guðnadóttir varð Reykjavíkurmeistri í tölti og fjórgangi ungmenna á Þrótti frá Fróni og Glódís Rún Sigurðardóttir varð efst sömu greinum í barnaflokki á Kamban frá Húsavík.

Hestakosturinn á þessu móti er vísbending um það sem koma skal á komandi keppnistímabili, og að hluta á Landsmóti hestamanna í Víðidal, því allmargir munu áreiðanlega spreyta sig í gæðingakeppninni. Langflestir keppendur á mótinu voru af höfuðborgarsvæðinu, aðeins fáeinir af Suðurlandi, Borgarfirði og Snæfellsnesi.

Nokkur ný hross, og í sumum tilfellum ný pör, komu fram á mótinu, sem koma til með að setja ferskan blæ á sumarið. Má þar nefna Eyjólf Þorsteinsson og Háfeta frá Úlfsstöðum, Árna Björn Pálsson og Storm frá Herríðarhóli, en þeir sigruðu töltið í 1. flokki, Guðmund Björgvinsson og Hrímni frá Ósi, sigruðu í fjórgangi í 1. flokki, og Hinrik Bragason og Smyril frá Hrísum, sem voru jafnir Eyjólfi og Háfeta að stigum í úrslitum í tölti meistara en sætaröðun dómara réði. Öll úrslit er að finna á www.fakur.is.

Nánar verður fjallað um einstök hross og keppendur í Hestablaðinu, sem kemur út 24. maí. Hægt er að kaupa áskrift í síma 511-6622.