miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Síðan með sín bönd og beisli, býsna hreifir læddust inn“

15. nóvember 2013 kl. 16:57

Vinir, traust og frjálst samþykki.

Pistill frá Helgu Thoroddsen reiðkennara.

Á heimasíðu Þingeyrabúsins, thingeyrar.is má finna áhugaverðan pistil þar sem Helga Thoroddsen reiðkennari veltir vöngum yfir þeirri umræðu sem fram hefur farið síðustu vikur og daga um umdeilda tamningaaðferð Iben Andersen. Hér fyrir neðan má lesa byrjun pistilsins en hann má lesa í fullri lengd með því að fara inn á thingeyrar.is

„Á dögunum sótti undirrituð sýnikennslu hjá hinni snaggaralegu Iben Andersen. Þar sýndi hún frumtamninga- og þjálfunaraðferðir sínar sem kynntar hafa verið sem byltingakenndar við tamningar. Iben kemur fyrir sjónir sem viðkunnanleg og dugleg hestakona. Það er vel að ungar konur láti að sér kveða við tamningar. Hitt er annað mál að sú aðferðafræði sem þessi unga kona kynnti í ríflega þriggja klukkustunda sýnikennslu sinni horfir ekki til framfara, er í besta falli gamaldags og óþörf og getur í versta falli verið hættuleg bæði mönnum og hestum. Hér er spjótum ekki beint persónulega að ungri hestakonu heldur þeim aðferðum sem hún kýs að standa fyrir.

Tekið skal fram að undirrituð var einungis á umdeildri sýnikennslu sem svo miklar umræður hafa skapast um en sótti ekki heilt námskeið. Fram hafa komið skoðanir ýmissa tamningamanna og kvenna um að hér sé á ferðinni aðferðafræði sem eigi fullan rétt á sér og geti nýst vel við tamningar. Ekki er gert lítið úr viðhorfum eða reynslu þessa fólks en miðað við það sem fram hefur komið á undirrituð langt í land með að sjá þörfina fyrir eða kostina við slíkar aðferðir. Til eru aðrar og betri.

Því fylgir nokkur ábyrgð að finna að því sem aðrir gera, en stundum verður ekki undan vikist. Því fylgir líka ábyrgð að þegja. Er ekki stundum sagt að þögn sé sama og samþykki? Þessi pistill er fyrst og fremst skrifaður í þeim tilgangi að taka upp hanskann fyrir skjólstæðing okkar hestamanna, hestinn. Með því að umbera þegjandi og hljóðalaust og/eða mæla bót umdeildri  tamningaaðferð erum við að samþykkja úrelta aðferðafræði sem flestallir  hafa sem betur fer langt á hilluna. Af hverju þá að taka hana upp á Íslandi? Ísland er upprunaland íslenska hestsins og þar af leiðandi berum við mikla ábyrgð varðandi  þau skilaboð sem við sendum út í hinn stóra heim varðandi ræktun hans, meðferð, tamningar og þjálfun.“

Sjá pistilinn í allri sinni lengd hér.