fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Segir hestamenn hafa gert upp á bak

28. október 2010 kl. 11:54

Segir hestamenn hafa gert upp á bak

Á landsþingi Landssambands hestamannafélaga á Akureyri um síðustu helgi...

var samþykkt harðorð  ályktun þar sem orðum Þórs Saari alþingismanns um kostnað vegna hestapestarinnar er mótmælt. Orðin lét Þór falla á dögunum í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi þar sem hann kallaði eftir því að forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu yrði breytt. Ótækt væri að milljónir rynnu til hestamannafélaganna vegna hestapestarinnar meðan að fólk biði í biðröðum eftir mat. „Áhugamál eins og til dæmis hestamennska eða trúarhefðir, þó menningartengd séu verða að mæta afgangi“, sagði Þór meðal annars.

Á landsþingi Landssambands hestamannafélaga á Akureyri um síðustu helgi var samþykkt harðorð  ályktun þar sem orðum Þórs Saari alþingismanns um kostnað vegna hestapestarinnar er mótmælt. Orðin lét Þór falla á dögunum í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi þar sem hann kallaði eftir því að forgangsröðun í fjárlagafrumvarpinu yrði breytt. Ótækt væri að milljónir rynnu til hestamannafélaganna vegna hestapestarinnar meðan að fólk biði í biðröðum eftir mat. „Áhugamál eins og til dæmis hestamennska eða trúarhefðir, þó menningartengd séu verða að mæta afgangi“, sagði Þór meðal annars.

Orð Þórs hleyptu sannarlega illu blóði í hestamenn. Ályktunin sem samþykkt var hljóðar svo: Landsþing LH haldið á Akureyri 22.-23. október 2010 mótmælir harðlega orðum Þórs Saari alþingismanns þar sem fram komu fordómar og vanþekking í garð hestamennskunnar á Íslandi. Hestamennskan er ein elsta og þjóðlegasta íþróttin sem keppnis- og almenningsíþrótt. Hún skapar fjölda fólks atvinnu og verulegar gjaldeyristekjur. Telur þingið að slíkur málflutningur sæmi ekki fulltrúa á löggjafarþingi þjóðarinnar.

Segir hestamenn hafa gert upp á bak

Bændablaðið hafði samband við Þór og innti hann viðbragða við ályktuninni. Þór segist furðu lostinn. „Ég verð nú að segja það að þarna hafa hestamenn á Íslandi gert langt upp á bak. Það er í fyrsta lagi ekki rétt að ég hafi vanþekkingu á hestum, ég hef verið með hesta sjálfur og verið í hestamennsku og veit alveg nákvæmlega hvað ég er að tala um. Í öðru lagi staðfestir þetta að hestamenn eru bara enn einn sérhagsmunahópurinn sem krefst þess að skattborgarar leggi fram fé í áhugamál þeirra. Það má vel vera að það sé hægt að réttlæta það við ákveðnar kringumstæður en þegar ástandið í samfélaginu er svona, að það þarf að forgangsraða hverri einustu krónu, þá einfaldlega verðum við að sætta okkur við það að sum verkefni verða að vera útundan“.

„Frámunalega heimskulegar yfirlýsingar“

Þór segist undanfarna daga hafa fengið mikið af pósti frá hestamönnum undanfarna daga sem hafi verið með algjörum ólíkindum. „Ég lýsi furðu minni á sjálfhverfu og skorti á samfélagsvitund hestamanna. Það er orðið hlægilegt hvernig sérhagsmunahópar haga sér, hlægilegt af því þeir haga sér eins og fífl en sorglegt líka vegna þess að þeir hugsa ekkert um annað heldur en eigin hagsmuni. Ég frábið mér svona frámunalega heimskulegar yfirlýsingar eins og frá Landssambandi hestamanna.“

Þór segir að hann hafi í umræðunum á þinginu tekið tvö gjörólík dæmi um fjárútlát ríkisins sem ætti að skera niður í ástandi eins og nú er. „Hestamenn hefðu því átt að átta sig á því að þetta er engin aðför að hestamönnum. Í fyrra tók ég önnur dæmi, ef þeir hefðu nennt að fylgjast með umræðunni þá. Þá tók ég dæmi um skrímslasetur á Bíldudal, spákonusetur á Skagaströnd og jólasveina í Mývatnssveit. Það er augljóst að það þarf að forgangsraða fjármunum skattborgaranna með öðrum hætti. Fyrr um daginn höfðu verið á fundi okkar í fjárlaganefnd fulltrúar frá landbúnaðarráðuneytinu og ég spurði út í tólf milljóna framlag til hestamannafélaganna út af kvefpest í hestum. Þeim fannst þetta bara eðlilegt og ég spurði hvort ekki mætti setja alveg eins tólf eða fimmtán milljónir í kattavinafélagið og hundavinafélagið. Þetta er einhver ömurlegur rembingsháttur í hestamönnum sem þeir eiga að skammast sín fyrir.“
Bændablaðið