laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sara og Díva rúlla upp töltinu

24. febrúar 2012 kl. 11:17

Díva frá Álfhólum, knapi Sara Ástþórsdóttir. Myndin er tekin á LM2011 á Vindheimamelum. Mynd/Jens

Undirstrika glæsilega innkomu í Meistaradeild í hestaíþróttum

Það hlýjar vafalítið gömlum hornfirskum hjörtum um rætur þegar gæðingar ættaðir úr átthögunum rúlla yfir keppinautana. Díva frá Álfhólum vann öruggan sigur í töli í Meistaradeild í hestaíþróttum í gær. Undir hnakk hjá hinni dugmiklu hestakonu Söru Ástþórsdóttur í Álfhólum, sem er einn örfárra hrossaræktenda, sem enn leggja rækt við hornfirskar hestaættir.

Díva er undan einum álitlegasta undaneldishesti landsins, Arði frá Brautarholti, en móðurættin er að miklu leiti hornfirsk. Þar má finna hross fyrir lengra komna; Ófeig frá Hvanneyri í bland við  skapríkar hestaættir  frá Kolkuósi. Töltið í Dívu minnir að mörgu leiti á töltið í Náttfara frá Fornustekkum, sem varð annar í B flokki á LM1978. Algjörlega sjálfgert, taktfast og knallandi. Engin smíðavinna þar á bakvið.

Díva er sérlega fimur og flinkur gæðingur. Reiðvöllurinn í Ölfushöll er ekki auðveldur, og reyndar spurning hvort það er boðlegt að færa keppnisgreinar utanhúss óbreyttar undir þak á litla velli. En þegar svona kjarkmikil og flink hross eins og Díva rúlla verkefninu upp er hætt við að menn gleymi slíkum smáatriðum, um stund að minnsta kosti.

Sara er nýliði í Meistaradeildinni. Hún varð önnur í gæðingafimi á Dívu fyrir skömmu. Sigurinn í töltinu undirstrikar glæsilega innkomu hennar í deildina. Og nú er bara að sjá hvað Sara dregur fram úr erminni þegar kemur að skeiðgreinunum.