fimmtudagur, 21. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sara mætir með Dívu-

22. febrúar 2012 kl. 15:44

Sara mætir með Dívu-

„Geðgóð, fluglétt og sprettglöð fjörhryssa, alger gleðigjafi,“ segir Sara Ástþórsdóttir og er hún að sjálfsögðu að lýsa Dívunni sinni glæsilegu sem hún ætlar vitaskuld að tefla fram í töltkeppni morgundagsins.

Sara er í fyrsta sinn að taka þátt í Meistaradeildinni og er innt eftir því hvernig hún takist á við spennu og pressu sem fylgir því að koma fram í krefjandi aðstæðum. „Það er farið í jóga og andlega íhugun á hverjum morgni vikuna fyrir keppni,“ segir hún í gamni og hlær. „Nei nei, aðalatriðið er að vera með hrossið eins vel undirbúið og unnt er, þá verður spennan að tilhlökkun.  Það er auðvitað alltaf meiri pressa að keppa á sterkum mótum, en það verður bara að tækla það á jákvæðan hátt og stefna að því að gera sitt besta í það og það skiptið,“ segir Sara sem þykir fyrirkomulag Meistaradeildar skemmtilegt.  „Þetta liðafyrirkomulag skapar jákvæða stemmingu og frábrugðið hefðbundinni keppni þar sem enginn er annars bróðir í leik.  Svo kallar hún líka á aga og útsjónarsemi að reyna að halda hrossinu í toppformi eins og hægt er miðað við árstíma.  Það er illa séð að afskrá sig daginn fyrir keppni af því að hrossið er eitthvað illa fyrirkallað, eins og maður myndi hiklaust gera ef engin væri pressan.  Svo er snilldin ein að geta valið tónlistina sjálfur,“ segir Sara og er nokkuð ljóst að áhorfendur geta átt von á kraftmiklum slagara við töltsveiflu Dívu á morgun.

Sara horfir björtum augum í vorið og stefnir á þátttöku á landsmóti. „Ég horfi í að fara með Dívu í töltkeppnina og jafnvel í B-flokk. Svo er ég með bróðir hennar Dimmi, sem mig langar að keppa á í A-flokk ef hann heldur áfram á þeirri braut sem hann er núna.  Svo sýni ég eitthvað af kynbótahrossum í vor eins og venjulega,“ segir hún að lokum.

Liðsfélagar Söru í Ganghestum/Málningu munu einnig mæta á þaulreyndum keppnishestum. Sigurður V. Matthíasson kemur með Lóm frá Langholti og Sylvía Sigurbjörnsdóttir með Þóri frá Hólum.

Veislan hefst kl. 19.30 í Ölfushöllinni og er aðgangseyrir 1.500 kr.
Einnig verður sýnt beint frá mótinu hér á vefsíðu Eiðfaxa.