þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samtal við Sigurbjörn

Gisli@eidfaxi.is
13. júní 2019 kl. 19:00

Landsliðshópur Íslands 2019

Landsliðsþjálfarinn spurður út í framhaldið

Framundan er Reykjavíkur meistaramót, mikil skráning er á mótið og dagskráin nær frá mánudegi til sunnudags.

Mótið er eitt af þremur mótum sem landsliðsknapar sem stefna á þátttöku á heimsmeistaramótinu taka þátt í. 

Eiðfaxi hafði samband við Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfara nú í aðdraganda mótsins og spurði um áherslur í knapavali og hvað hefur verið unnið með frá íþróttamóti Sleipnis.

„Sleipnismótið var fyrsta mótið af þremur sem við gáfum út að væri til sérstakrar skoðunar gagnvart vali á landsliðinu fyrir HM í  Berlín. Á því móti varð til ákveðin beinagrind sem unnið er áfram með á næstu tveimur mótum þ.e.a.s. Reykjavíkur mótinu og svo Íslandsmótinu í júli. Eftir Sleipnismótið fengu knapar faglegt álit landsliðsþjálfara, á sínum sýningum, um það hvað væri gott og hvað mætti betur fara, sem síðar ætti að geta orðið þeim til framdráttar fyrir næstu mót.“

Hvert er hlutverk landsliðsþjálfara á RVK mótinu og hvað er horft í hjá keppendum?

„Það sem framundan er á þessu móti er það að landsliðsþjálfari og aðstoðarmenn hans fylgjast með þeim knöpum sem gefa kost á sér fyrir HM í Berlín, jafnt því að horft er á aðra knapa sem ekki hafa gefið kost á sér jafnt úr báðum flokkum, ungmenna- sem og fullorðinsflokki. Því vil ég eindregið hvetja þá knapa sem áhuga hafa á því að gefa kost á sér í landsliðið fyrir HM 2019 í Berlín að koma upplýsingum um knapa og hest sem gefa kost á sér á framfæri á þetta mail diddihestar@gmail.com eða á lh@lhhestar.is. Einnig fylgjumst við grannt með þeim knöpum sem keppa erlendis og gefa kost á sér í liðið"

Er einhver knapi og hestur nú þegar komnir með landsliðssæti?

Eins og staðan er í dag er enginn kominn með fast sæti í endanlegum landsliðshópi, að undanskildum heimsmeisturum sem eiga fast sæti í liðinu, en að sjálfsögðu eru línur farnar að skýrast og munu gera það enn frekar nú þegar RVK mót er afstaðið. Þó verður landsliðshópurinn sem fer út ekki kynntur fyrr en 10 julí. Fram að þeim tíma er verið að vinna að því að finna sterkustu pörin fyrir Islandshönd á HM.“

Eiðfaxi þakkar Sigurbirni fyrir samtalið og mun áfram flytja fréttir af landsliðsmálum.