þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samskip styrkja LH

5. júní 2014 kl. 18:09

Axel Ómarsson framkvæmdastjóri Landsmótsins (t.v.) og Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa undirrita samstarfssamninginn

Stuðningur við Landsmót

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Landssambands  hestamannafélaga – LSH og Samskipa um stuðning við Landsmót hestamanna sem haldið verður á Hellu 30. júní – 6. júlí í sumar, ásamt stuðningi við Landslið Íslands í hestaíþróttum.

Það er ekki í fyrsta sinn sem slíkt samstarf er handsalað en Samskip hafa stutt við bak hestamanna árum saman með einum eða öðrum hætti. Má nefna að Samskip voru aðal styrktaraðilar þriggja síðustu landsmóta, í Reykjavík, á Vindheimamelum og þar áður á Hellu.

Stuðningur Samskipa er m.a. fólginn í því að leysa og sjá um alla flutninga sem tengjast mótinu í sumar en þeir eru margvíslegir. M.a. þarf að flytja stúku frá Svíþjóð og tjöld frá Þýskalandi auk annars varnings innanlands og utan.

Axel Ómarsson framkvæmdastjóri Landsmótsins og Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa undirrituðu samstarfssamninginn og sagði Axel við það tækfæri. „Það er okkur afar mikils virði að fá Samskip til áframhaldandi samstarfs, njóta reynslu þeirra og fagmennsku. Það er flókið verkefni að halda Landsmót  og mikilvægt að þar sé valinn maður í hverju rúmi. Við erum heppin hjá Landssambandinu að fá Samskip og fleiri í þeirra gæðaflokki í lið með okkur – við hlökkum til að hitta Íslendinga á Hellu í sumar.“