fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sammála um að hægja á hringvallarmálinu

22. febrúar 2012 kl. 11:58

Sveinn Steinarss á Litlalandi, formaður Hrossaræktarsamtaka Suðurlands.

Formannafundur í Félagi hrossabænda

Formannafundur í Félagi hrossabænda var haldinn í gær vegna þeirrar miklu óánægju sem fram er komin með fyrirhugaðar breytingar á kynbótadómum á Landsmóti í Reykjavík. Sveinn Steinarsson, hrossabóndi á Litlalandi í Ölfusi, er formaður Hrossaræktarsamtaka Suðarlands, en samtökin boðuðu til fundarins í Ölfushöll um málið, sem frægur er orðinn. Niðurstaða þess fundar var að fyrirhugaðar breytingar væru ekki til bóta. Allt að hundrað manns var á fundinum.

„Helsta niðurstaða formannafundarins frá mínum bæjardyrum séð er að flestir eru sammála um að hægja á sér hvað varðar hugmyndir um breytt fyrirkomulag dóma á Landsmótinu í Reykjavík. Menn hafa eins og gengur misjafnar skoðanir á hlutunum, hvort þær séu til bóta eða ekki, en ég held ég geti fullyrt að flestir séu sammála um að aðdragandinn hafi ekki verið heppilegur. Semsagt að ákveða fyrst og kynna svo.

Flestir eru tilbúnir að skoða málið með opnum huga; hvort ástæða sé til breytinga og reyna þá að meta hvernig og með hvaða hætti verður að þeim staðið. En menn vilja jafnframt gera það af yfirvegun og gefa sér góðan tíma,“ segir Sveinn Steinarsson.

Fundur verður haldinn í fagráði í hrossarækt á morgun þar sem væntanlega verður tekin afstaða til formannafundarins og hvaða stefna verður tekin í framhaldinu.