miðvikudagur, 24. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Samantekt frá KS deildinni

13. mars 2014 kl. 10:25

Lið Hrímnis í KS deildinni

Lið Hrímnis með afgerandi forystu

KS deildin fór fram í gær en hér fyrir neðan birtist samantekt Svölu Guðmundsdóttur frá KS deildinni.

"Í gærkvöldi fór fram fimmgangskeppni KS-Deildarinnar í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki. Mikil spenna var fyrir þessari keppnisgrein þar sem fimmgangur býður oft uppá miklar sviftingar. Mikið hafði rignt og aðstæður til upphitunar utandyra hafa eflaust verið mjög erfiðar fyrir knapa.

Eftir ágæta forkeppni leiddi Þórarinn Eymundsson en þar skammt á eftir var Ísólfur Líndal. Auk þeirra fóru beint í A-úrslit þeir Elvar E. Einarsson og Bjarni Jónasson.

Efst inní B-úrslit kom Mette Mannseth, þar á eftir Tryggvi Björnsson en einuning munaði þremum kommum á þeim. Hörður Óli kom þriðji inn, síðan Líney María og jafnir inní B-úrslitin urður Sigvaldi Lárus og Viðar.

Mette Mannseth og Stjörnustæll gáfu strax tóninn eftir góða sýningu á tölti og fannst mörgum að þar hefði mátt muna meiru í næstu hesta og jafnvel á einkunum fyrir stökk líka.

Líney og Brattur fóru vel í gegnum þessi úrslit með gott fet og frábæra útfærslu á skeiði og sannaði Líney hæfileika sína á að útfæra fallega skeiðspretti.
Tryggvi komst vel frá sínu með hestinn Villanda og leysti verkefnið með sóma. Hörður Óli og Hreinn voru í fínu formi og þar á eftir komu Sigvaldi Lárus og Viðar Bragason. Allir keppendur í B-úrslitum sýndu góða reiðmennsku og skeiðsprettir voru áberandi góðir.
Það fór svo eins og í fjórgangnum að þær Mette og Líney börðust um sæti í A-úrslitum þar sem Mette hafði betur í þetta skiptið. Hestur Mette Stjörnustæll er athyglisverður keppnishestur, hágengur, flott formaður og líklegur til afreka í framtíðinni.

Þá var komið að A-úrslitum. Þórarinn kom þar efstur inn og mátti sjá á kappanum að hann ætlaði sér stóra hluti. Þeyr er sennilega ekki auðveldasti hesturinn en jafnvígur á gangtegundir og reiðmennska Þórarins laðar fram bestu kosti hestsins og skilaði þeim alla leið í kvöld.

Mette og Stjörnustæll fóru í annað sætið, sýndu áfram gott tölt og batnði skeiðið með hverjum spretti en samtals fóru þau átta skeiðspretti í kvöld sem heppnuðust allir.

Sigurvegararnir frá því í fyrra Ísólfur og Sólbjartur urðu í þriðja sæti. Sólbjartur virkaði léttari og betri á tölti en áður og aðrar gangtegundir góðar.

Bjarni tefldi fram lítt reyndum keppnishesti Dyn frá Dalsmynni. Dynur er allra athygli verður, taktviss á tölti, hágengur og kemur vel fyrir – efnilegur fimmgangari.

Elvar endaði fimmti á hryssunni Gátu sem hann fékk að láni hjá Bjarna. Gáta er kraftmikil rýmishryssa sem nýtur sín eflaust betur á stærra svæði en fyrir reiðmennsku kvöldsins hlaut Elvar viðurkenningu FT – Fjöðrina."

Mikil spenna er komin í einstaklingskeppni deildarinnar þar sem þeir eru efstir og jafnir Þórarinn og Ísólfur með 37 stig. Þar á eftir kemur Bjarni með 34 stig og Mette með 30. Það er því ljóst að ekkert verður gefið eftir í þeim greinum sem eftir eru.

Í liðakeppninni er sem stendur ekki eins mikil spenna, þar sem lið Hrímnis hefur tekið afgerandi forustu með 91 stig. Þar á eftir kemur laekjamot,is með 67,5 og í þriðja Draupnir/Þúfur með 66 stig.

IMG_4644 Ks-verdlaunapallur Mette mette-skeid