þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Saman á Melunum

18. júlí 2019 kl. 23:35

Þóra Höskuldsdóttir og Sólfaxi

Hestamenn í Eyjafirði skemmta sér saman á Melgerðismelum!

Helgina 26-28 júlí næst komandi verður fjölskylduhátíðin “Saman á melunum” haldin með pompi og prakt. Þarna ætlum við hestamenn að skemmta okkur í góðu veðri við frábærar aðstæður á Melgerðismelum í Eyjafirði.

Hér eru drög að dagskrá helgarinnar.

Stefnt er á samreið frá Kaupangsbökkum fram á Melgerðismela á föstudeginum, lagt af stað frá bökkunum kl. 17. Um að gera fyrir alla að taka þátt í hópreiðinni, hvaðan sem þeir koma.
Þegar komið verður fram á mela bíður rjúkandi kjötsúpan.

Á laugardeginum þegar allir hafa tekið þátt í sameiginlegum morgunverði í Funaborg hefst forkeppni í tölti, T3 og T7. Eftir forkeppni verður vöfflukaffi, nýir startbásar Léttis og Funa verða vígðir og kappreiðar í framhaldinu. Keppt verður í skeiði, stökki og brokki. Eftir hraðagreinar og verðlaunaafhendinu verður kynning á keppnisgreininni TREC, alþjóðlegri þrautakeppni sem Funi hefur verið í fararbroddi að innleiða. Gestir geta svo prófað sig í brautinni yfir helgina. 
Þá er komið að sameiginlegum reiðtúr og glæsilegri grillveislu. Úrslit í tölti verða svo (A og B úrslit verða ef skráningar verða fleiri en 20 í hvorri grein) og kvöldinu lokað með varðeldi og kvöldvöku.

Á sunnudag eftir sameiginlegan morgunverð fara menn í að taka saman og svo verður hugað að heimferð þar sem gestir verða sólbrenndir og sælir (búið er að múta veðurguðunum).

Verði verður stillt mjög í hóf, kostnaður fyrir alla helgina er 3.000 krónur fyrir 14 ára og eldri, frítt fyrir yngri.

Varðandi skráningar í keppnir verður ekki opnað fyrir þær strax en þess má geta að skráningargjöld í þær er 1.000 krónur á knapa, óháð fjölda hrossa og keppnisgreina.

Vonandi verður almenninssalernisaðstaðan sem beðið hefur verið eftir orðin klár, en ef ekki er aðstaða inni í Funaborg. Varðandi tjaldsvæði þá er því miður ekki nógu öflugt rafmagn á svæðinu svo hægt sé að stinga hjólhýsum og þessháttar í samband.

Til að gera okkur grein fyrir fjölda á hátíðina sjálfa biðjum við fólk að skrá sig á hátíðina á netfangið lettir@lettir.is taka þarf fram aldur og fjölda. Skráningu líkur þriðjudaginn 23 júlí kl 24.00.
Undirbúningsnefndin.