föstudagur, 20. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Salan hefur verið góð

odinn@eidfaxi.is
14. nóvember 2013 kl. 22:32

Hallgrímur Birkisson

Nóg að gera á Kirkjubæ

Eiðfaxi leit við í Kirkjubæ á dögunum en þar ræður Hallgrímur Birkisson ríkjum. Um 40 hross eru þar á járnum og mikið hefur verið að gera undanfarnar vikur við að frumtemja. Var hann m.a. með um 15 hross frá Kirkjubæjarbúinu auk um 10 tryppa frá öðrum. Að sögn hans var talsvert af efnilegum hrossum í hópnum “það eru hér mjög spennandi hross undan Fána frá Kirkjubæ, en hann var seldur nú í vor. Undan honum virðast vera geðgóð og falleg hross en mér finnst trúlegt að flest þeirra séu klárhross” segir Hallgrímur.

Nú hefur hann sleppt þessum tryppum út, en ásamt frumtamningum hefur Hallgrímur alltaf talsvert úrval sölurhossa. “Nú er ég að taka inn seinni hópinn af tryppum en hægt er að koma tryppum að hjá mér næstu daga” segir hann og bætir við að vegna góðrar sölu hafi hann nú einnig rúm fyrir söluhross.

“Salan hefur verið fín í haust en ég hef í gegnum tíðina verið með alla flóruna af söluhrossum. En nú þegar harnað hefur á dalnum þýðir lítið að reyna að selja geðslags eða ganglagsgölluð hross” segir hann en hjá honum eru tvær þýskar tamningarkonur í vinnu ásamt því að kona hans Gyða Pálsdóttir léttur undir þegar næði gefst til þess. Hallgrímur og Gyða eiga saman dreng á fyrsta ári en mest öll orka Gyðu fer í uppeldi hans, en syngur á Hótel Rangá ásamt Ómari Diðrikssyni eitt kvöld í viku.