þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sagan af Flugu og Eiðfaxa

27. nóvember 2014 kl. 13:07

mynd: Inga Stumpf, 3sæti í ljósmyndasamkeppni Eiðfaxa 2012

Fyrstu hrossin nafngreind í íslenskum heimildum.

Hross voru fyrst nafngreind í Landnámu en þar er að finna söguna af Flugu og stóðhestinum Eiðfaxa. Sagan hefst á því að skip kemur inn Skagafjörð og á að hafa lagst að í Kolbeinsárósi. Þar voru gripakaupmenn á ferð og var Fluga þar um borð. Fluga sleppur úr höndum mannanna og er talin hafa týnst inn í Brimnesskógum. Þórir dúfunef, ungur maður og fyrrum þræll, tók á móti skipinu og vonaðist eftir að geta keypt gripi af mönnunum. Þórir kaupir vonina í hryssunni þ.e.a.s að ef hann myndi finni hana þá mætti hann eiga hana. Fer það svo að hann finnur hryssuna, nefnir hana Flugu og er talið að hann hafi nefnt bæ sinn eftir henni, Flugumýri í Skagafirði.

Þórir er síðan á ferð yfir Kjöl og hittir þar Örn, landshornamann. Þeir veðjuðu um hvort hrossið þeirra væri fljótara. Það fór svo að Fluga vann en vegna mæðis þurfti Þórir að skilja hana eftir. Á heimleiðinni fann þó Þórir Flugu en með henni var grár hestur og hafði merin fengið við honum. Þá kemur Eiðfaxi til sögunnar en í Landnámu segir: “Undir þeim var alinn Eiðfaxi, er utan var færður og varð sjö manna bani við Mjörs á einum degi, og lést hann þar sjálfur.” Talið er að Fluga hafi farist í feni á Flugumýri eða í Flugufeni.