fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sættum okkur ekki við áverka á sýningahrossum

26. október 2011 kl. 13:05

Haraldur Þórarinsson

Faghópur myndaður á næstu dögum

„Við sættum okkur ekki við að sýninga- og keppnishross á Landsmótum séu með áverka,“ segir Haraldur Þórarinsson, formaður Landssambands hestamannafélaga. Á stjórnarfundi LH nýlega kynnti Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, niðurstöður úr áverkaskoðunum á LM2011 á Vindheimamelum.

Haraldur segir að niðurstöðurnar hafi verið all sláandi. Svo virðist sem hestafólk, og jafnvel þaulreyndir knapar, geri sér ekki grein fyrir að hrossin þeirra séu með áverka undan reiðtygjum, einkum tiltekinni gerð beislisméla. Þörf sé á auknum rannsóknum og upplýsingagjöf.

„Stjórn LH mun mynda faghóp á næstunni til að fara yfir þessi mál og leggja fram tillögur um viðbrögð. LH á að sjálfssögðu að vera í forystu í öllu er lýtur að velferð hrossa. Nú kemur í ljós að áverkar eru fleiri á Landsmótinu í sumar en á LM2008, sem að einhverju leyti skýrist af því að áverkaskoðunin er ýtarlegri nú. En við sættum okkur ekki við þetta, það er alveg ljóst,“ segir Haraldur Þórarinsson.