laugardagur, 17. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sæll kaldi heimur-

15. maí 2012 kl. 09:19

Sæll kaldi heimur-

Það var heldur kaldur heimur sem tók á móti þessu fallega, skjótta merfolaldi norður í Hjaltadal um helgina. Fregnir hafa borist af því að fjöldi hrossabænda hafi tekið nýkastaðar folaldsmerar á hús, enda aðstæður hinar verstu fyrir ungviðið og sums staðar lá enn meiri snjór yfir en sést á þessari mynd. Dýralæknar mæla með því að menn fari að öllu með mikilli gát þegar nýkastaðar hryssur eru teknar á hús því þær geta orðið mjög stressaðar og slysahættan er mikil. Vatn verður að vera til staðar. Góðu fréttirnar eru þær að veðurspáin nyrðra er heldur hagstæðari en verið hefur síðustu daga, þó spáir frosti að nóttu til.

 
Snúið getur verið að handsama nýkastaðar hryssur, en það tókst farsællega í þetta sinn og fékk litla hryssan, sem hlaut nafnið Ósk, að dvelja innandyra í nótt. Og jafnvel þótt hún hafi verið komin á spena og drukkið duglega þegar hún var úti þá var Óskin fegin að komast inn í skjólið. Skjónurnar voru þó hafðar við opið og var öndin með þeim báðum í morgunsárið.  Móðir Óskar litlu er Gjöf frá Sauðárkróki og faðirinn Sveipur frá Hólum, ungur sonur Kráks frá Blesastöðum 1A og Aspar frá Hólum.