fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rúnar Þór hættur hjá VÍS

2. október 2009 kl. 12:04

Snýr sér alfarið að Hrímni

Rúnar Þór Guðbrandsson hefur látið af störfum hjá VÍS, en þar vann hann meðal annars að markaðssetningu á VÍS/Agría dýratryggingum, sem hestamenn þekkja. Rúnar Þór ætlar nú að einbeita sér alfarið að frekari markaðssetningu og sölu á hnakknum Hrímni.

Rúnar segir að það hafi verið góður stígandi í sölu á Hrímnis hnakknum undanfarin ár. Þetta ár sé hins vegar það besta frá upphafi. Mjög góður kippur hafi komið í söluna eftir HM2009 í Sviss, þar sem hann var með kynningarbás.

„Ég hóf samstarf við framleiðanda hnakksins í Argentínu fyrir þrettán árum. Hann kom á markað fyrir tíu árum. Hann er nú framleiddur í tveimur útgáfum. Nýlega bætti ég við hnakknum Tý, sem er hugsaður sem samkeppni við Hrímnis hnakkinn. Ég hef undanfarin ár kynnt Hrímni á stórri sölusýningu í Köln í Þýskalandi og er nú kominn í samstarf við fimmtíu söluaðila í Evrópu, Norðurlöndunum og Ameríku. Hnakkaframleiðslan hefur til þessa verið aukabúgrein hjá mér, en nú ætla ég að einbeita mér alfarið að henni,“ segir Rúnar Þór Guðbrandsson.