sunnudagur, 18. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rúna Zingsheim kennir hestamönnum

Jens Einarsson
2. mars 2010 kl. 11:34

Með tvo fyrirlestra um helgina

Rúna Einarsdóttir Zingsheim er stödd hér á land og mun miðla landanum úr viskubrunni sínum á tveimur fyrirlestrum um næstu helgi. Á föstudag í félagsheimili Skugga í Borgarnesi klukkan 19.00 og á sunnudag í Rangárhöllinni á kennslusýningu sem hefst klukkan 13.00.

Rúna hefur verið í fremstu röð knapa á íslenskum hestum í rúma tvo áratugi. Hún starfaði um árabil á Stóðhestastöðinni í Gunnarsholti en hefur búið í Þýskalandi í um það bil fimmtán ár. Hún og eiginmaður hennar, Karly Zingsheim, eiga stórglæsilega hestamiðstöð í Þýskalandi nærri Lúxemborg, sem heitir Gestüt Forstwald. Karly var (og er) í áratugi einn fremst reiðmaður Þjóðverja og er nú formaður þýska Íslandshestasambandsins IPZV.

Rúna hefur ævinlega þótt sérlega snyrtilegur og prúður knapi og innleiddi á sínum tíma ný viðmið í klæðaburði knapa og snyrtingu og meðferð hesta. Keppnishestar Rúnu voru ævinlega tandurhreinir og gljáandi á feldinn, með skipt og burstað fax. Hún og hrossin hennar báru af. Hún hefur á löngum keppnisferli safnað mikilli reynslu í reiðmennsku og þjálfun og hefur náð frábærum árangri í hestaíþróttum, jafnt á klárhrossum sem alhliða gæðingum. Það er því kærkomið að hún skuli loksins ætla að miðla þessari reynslu til okkar hinna, en Rúna hefur lítið fengist við kennslu til þessa, alla vega hér á landi.

Sjá nánar á: www.tamningamenn.is