miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ræktar hross af Steðjakyni í Flókadal

26. júlí 2010 kl. 13:37

Ingólfur á Dýrfinnustöðum heillaðist af hvítu hrossunum

Ingólfur Helgason á Dýrfinnustöðum í Skagafirði heillaðist af hvítu hrossunum frá Steðja í Flókadal í Borgarfirði. Hann keypti hryssur frá Steðja og einnig á Fjalli í Skagafirði, þar sem leggur af þessari ætt var ræktaður um árabil.

Ættir gráu/hvítu hrossanna á Steðja í Flókadal og á Kleifum í Gilsfirði má rekja til hryssunnar Lýsu frá Útibleiksstöðum í Húnavatnssýslu. Hún var sýnd með afkvæmum 1971 og fékk þessa umsögn: Afkvæmi Lýsu eru traustbyggð og kjarkmikil, léttviljug, fjölhæf í gangi og snarpvökur. Prýðisgóð reiðhestamóðir. Lýsa fékk 1. verðlaun, einkunn 7,87.

Stefán Eggertsson á Steðja var bróðursonur Jóhannesar Stefánssonar á Kleifum. Eggert og Jóhannes fengu báðir hryssur undan Lýsu. Toppa (8,20) og Iða (8,02) voru undaneldishryssur á Kleifum, en Dokka (8,32) og Hlynur eru grunnurinn að Steðjaættinni. Þess má geta að Rakel frá Akranesi, ræktunarhryssa Jóns Árnasonar, er undan Fóstra frá Steðja, Hlynssyni.

Dokka var úrvalshryssa með 8,53 fyrir kosti, þar af 9,0 fyrir tölt og 8,5 fyrir brokk, skeið vilja og fegurð. Undan henni var Hnokki frá Steðja. Hann var sýndur á Skógarhólum 1978, fékk 8,07 fyrir kosti og þessa umsögn: Mjög prúður, hnellinn, en of stuttvaxinn, úrvals herðar, lendin jöfn og sterk. Flugvakur, þjáll gæðingur. Vörumerki ættarinnar er grái, eða öllu heldur hvíti liturinn, en hross af þessari ætt verða yfirleitt snemma hvít.