föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reynir Aðalsteinsson látinn

26. janúar 2012 kl. 10:10

Reynir Aðalsteinsson var frumkvöðull í reiðmennsku í hálfa öld.

Frumkvöðull í reiðmennsku í hálfa öld

Reynir Aðalsteinsson, tamningameistari og reiðkennari, lést í gær eftir stutta baráttu við krabbamein. Hann var fæddur í Reykjavík 16. nóvember 1944 og 67 ára þegar hann lést.

Reynir var frumkvöðull í hestamennsku og reiðmennsku í hálfa öld. Hann byrjaði feril sinn um 1960 sem tamningamaður og var í fararbroddi ungra tamningamanna sem kynntu sér nýjungar í reiðmennsku í Þýskalandi um1970.

Í fjóra áratugi var hann einn ötulasti og framsýnasti reiðkennari á íslenska hesta og flutti stöðugt þekkingu á milli; frá Íslandi til útlanda, og frá útlöndum og heim. Hann samdi einnig kennslubækur og myndbönd um reiðmennsku.

Reynir starfaði sem yfirkennari í reiðmennsku á LbhÍ á Hvanneyri síðustu æviárin og er höfundur „Reiðmannsins“, sem er námskeið kennt í fjarnámi við Landbúnaðarháskólann og nýtur vinsælda um allt land.

Hestablaðið vottar aðstandendum innilega samúð.