fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reynir Aðalsteinsson jarðsunginn

10. febrúar 2012 kl. 17:07

Reynir Aðalsteinsson jarðsunginn

Útför Reynis Aðalsteinssonar tamningameistara og yfirreiðkennara við LbhÍ var gerð frá Hallgrímskirkju í dag.

Margir samferðamenn Reynis skrifa fallega um hann í minningargreinum Morgunblaðsins í dag:

„Einstaka manneskja hefur eitthvað meira til brunns að bera en gengur og gerist í mannheimum og við sem erum svo lánsöm að hafa kynnst Reyni erum einróma um að það átti sannarlega við hann. [...] Hann var sannur Íslendingur og náttúrubarn af Guðs náð og fyrir tilstilli hans urðu kynni mín af landinu okkar umtalsverð og á ég þar við öll ferðalögin sem lagt var í með menn og hesta vítt og breitt, hvort sem var um eyðisanda eða grænar grundir,“ skrifa Birgir og fjölskylda.

„Með skarpar gáfur, keppnisskapið og eljuna í forgrunni aflaði hann sér ómældrar þekkingar á sviði hestafræða, miðlaði þeirri þekkingu með orðum, skrifum og myndefni en átti margt ósagt, kennari af guðs náð. [...] Ég trúi þú hafir riðið skeið um Gjallarbrú og sért nú að möndla við hross, finna lausnir, prófa eitthvað nýtt.“ skrifar Guðlaugur Antonsson og Edda Þorvaldsdóttir.

„Þú horfðir á hestana og last þá út og hestarnir horfðu á þig. Þið töluðuð saman án orða eins og verur úr öðrum heimi. Hesturinn talaði og þú svaraðir eða þú, Reynir minn, talaðir og hesturinn svaraði þér eftir bestu getu.

Í huga mér kom kínverskt spakmæli. Upp kom sú mynd að það var eins og þú og hesturinn sætuð hvor sínum megin við borðið og þið væruð að spjalla saman. Hesturinn talaði og þú svaraðir:

Ég er kviksjá hugans. Ég leysi í sundur ljós, liti og eilífðarhreyfingu. Ég hugsa, ég sé, ég hreyfist með rafmögnuðum þokka. Stöðugur aðeins í breytileika mínum er ég ófjötraður af jarðneskum gildum. Hömlulaus af kröftugum markmiðum. Ég hleyp óhindraður um ótroðnar slóðir. Andi minn er ósigraður – sál mín frjáls að eilífu. Ég er hesturinn.

Þú svaraðir hestinum, nú bið ég þig að hlusta á mig og þá getum við komist að samkomulagi,“ skrifa Sigurborg, Jón og fjölskylda.

Reynir fæddist í Reykjavík 16. nóvember 1944. Hann nam búfræði við Bændaskólann á Hvanneyri, auk þess sem hann lærði tamningar. Reynir var yfirreiðkennari við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri frá árinu 2006 til dánardags og var búsettur á Hvanneyri síðustu árin. Reynir var stofnfélagi Félags tamningamanna og heiðursfélagi, einnig var hann heiðursfélagi í Hestamannafélaginu Faxa og félagi í Hestamannafélaginu Þyt. Reynir var stofnfélagi karlakórsins Söngbræðra á Vesturlandi.

Reynir var frumkvöðull í því að innleiða nútímareiðmennsku á Íslandi. Hann var líklega fyrstur manna til gera tamningar og þjálfun hrossa að lifibrauði sínu og fjölskyldunnar allt árið. Reynir var mikill keppnismaður og lagði lengi stund á keppni á hrossum. Hann var margfaldur Íslandsmeistari í hestaíþróttum. Reynir tók einnig margsinnis þátt í Evrópu- og heimsmeistaramótum og vann þar marga eftirminnilega titla. Hann var ennfremur virtur tamningameistari og heiðursfélagi í Félagi tamningamanna.

Hann lætur eftir sig eiginkonu, Jónínu Hlíðar, og sex uppkomin börn.