mánudagur, 26. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reiðskólar og hestaleigur með heilbrigð hross

Jens Einarsson
23. júní 2010 kl. 14:00

Keppnis- og sýningahross veikari

Starfsemi á tamningastöðvum og hrossabúum hefur legið niðri síðastliðnar vikur og mánuði, en er nú að síga í gang hjá þeim sem fengu pestina fyrst. Flestir reiðskólar, hestaleigur og hestaferðafyrirtæki hafa hins vegar ekki þurft að gera hlé á starfssemi, sem mörgum finnst reyndar grunsamlegt og spyrja hvort eigendur þessara fyrirtækja séu að nota veik hross og hylmi yfir veikindin.

Það er komið í ljós að mjög misjafnt er hvernig hrossapestin leggst í hrossahópa milli svæða og á einstaklinga innan sama hóps. Ljóst virðist að pestin fer verst í hross sem voru í mikilli þjálfun áður en þau tóku pestina. Hross sem tóku pestina á útigangi, eða voru á húsi í lítilli brúkun, virðast fara betur út úr henni.

Fulltrúar reiðskóla og hestaleiga sem H&H hefur haft samband við fullyrða að hrossin séu almennt heilbrigð. Fylgst sé grannt með heilsu þeirra og þau tekin til hliðar ef grunur leikur á að þau séu veik. Í Hestar og hestamönnum, sem kemur út á morgun, er spjallað við Hjalta Gunnarsson á Kjóastöðum og Hróðmar Bjarnason hjá Eldhestum, sem báðir eru í hestaferð um Kjöl með tugi hrossa.