laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reiðmaðurinn á Hvanneyri

2. febrúar 2010 kl. 14:37

Tveggja ára nám á vegum Endurmenntunar LbhÍ

Reiðmaðurinn er tveggja ára nám í reiðmennsku og hrossarækt sem Endurmenntunardeild Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri hefur boðið upp undanfari ár. Námið er að hluta fjarnám og hægt þess vegna hægt að stunda það með vinnu, og óháð staðsetningu á landinu.

Verkleg kennsla fer fram með nokkurra vikna millibili á þremur stöðum: Mið-Fossum í Andakíl, Dal í Mosfellssveit og í Rangárhöllinni á Gaddstaðaflötum. Síðastliðið haust stunduðu tæplega fjörutíu nemendur á öðru ári námið á Mið-Fossum, tólf í Dal og tólf í Rangárhöllinni. Nemendur eru staðsettir víða á landinu, meðal annars á Hornafirði. Yfirkennari er Reynir Aðalsteinsson á Hvanneyri. Halldór Guðjónsson sér um verklegu kennsluna í Dal, og Ísleifur Jónasson í Rangárhöllinni.

Fyrir jólin slógu nemendur og kennarar upp veislu og kennslusýningu á Mið-Fossum. Reynir fór þar yfir námsefni vetrarins og þeir Halldór og Ísleifur voru með kennslusýningar. Sér til aðstoðar höfðu þeir gæðingana Nátthrafn frá Dallandi og Röðul frá Kálfholti. Hér er um að ræða spennandi og gagnlegt nám sem flestir hafa tækifæri til að nýta sér. Sjá nánar á: http://www.lbhi.is