fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reiðskólarnir hefja starfsemi sína -

10. júní 2010 kl. 11:23

Reiðskólarnir hefja starfsemi sína -

Þó að lítið hafi verið um að vera í hesthúsahverfunum síðustu vikur, er það heldur að glæðast. Nú þegar sumarfrí skólabarna eru að hefjast um allt land, hefja reiðskólarnir árlega starfsemi sína.

Eiðfaxi var á ferð í Víðidalnum um helgina og hitti fyrir ungt fólk sem var að undirbúa hross og aðstöðu fyrir fyrstu námskeið sumarsins.

Linda Steinunn Guðgeirsdóttir er 19 ára stúlka hjá Reiðskóla Reykjavíkur. Skólinn hefur verið starfræktur síðan 2001 og eru það hjónin Edda Rún Ragnarsdóttir og Sigurður Vignir Matthíasson sem það gera. Linda var í óðaönn að þrífa og sótthreinsa hús og búnað þegar Eiðfaxa bar að garði.

„Já, við erum að þrífa allt hérna og sótthreinsa. Reiðskólahestarnir verða nú samt úti, að mestu leyti alla vega. Það borgar sig að þrífa vel eftir kvefpestina í hrossunum.“

Reiðskólinn Faxaból hefur starfað síðan árið 2000. Það voru þau Þóra Þrastardóttir og Tómas Ragnarsson sem stofnuðu skólann. Eiðfaxi hitti fjórar röskar stúlkur við hesthús skólans. Þær lögðu á hvern hestinn á fætur öðrum og þjálfuðu af miklum móð.

„Við erum að þjálfa hestana, svona undirbúa þá fyrir komu krakkanna eftir helgina,“ sögðu stelpurnar, sem allar hafa verið áður í vinnu hjá Faxabóli og kunna greinilega vel við að vera á hestbaki allt sumarið. Þetta voru þær Bergdís Sif, Melkorka Mist, Ása María og Rebekka Rut. 

Það er yndislegt að sjá aftur líf í hesthúsahverfunum og Eiðfaxi óskar öllum nemendum skólanna góðs gengis í hestamennskunni í sumar.