laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reiðmaðurinn á Hvanneyri

10. júlí 2010 kl. 16:14

Reiðmaðurinn á Hvanneyri

 Tveggja ára námskeiðsröð fyrir áhugafólk um reiðmennsku

 

Það er stefna LbhÍ að bjóða hestafólki upp á vandað nám um íslenska hestinn og allt sem lýtur að umgengni við hann. Endurmenntun LbhÍ, í samvinnu við Landsamband hestamannafélaga og Félag hrossabænda, opnar nú fyrir nýja námshópa í áfangaskipt tveggja ára nám í reiðmennsku, hrossarækt og almennu hestahaldi. Fyrstu hóparnir innrituðust í námið haustið 2008 og útskrifuðust þeir frá Hestamiðstöð LbhÍ vorið 2010, alls 34 Reiðmenn. Í gangi eru tveir hópar, annar í Hestamiðstöðinni Dal og hinn í Rangárhöllinni.

 

Námið er ætlað hinum almenna hestamanni sem vill á markvissan og skipulegan hátt auka færni sína á flestum þeim sviðum sem varða íslenska reiðhestinn. Námið er byggt upp sem röð af helgarnámskeiðum þar sem nemendur koma með sinn hest og taka fyrir ákveðinn hluta af reiðmennskunni. Einnig verður farið yfir bóklegt efni í gegnum fjarnám. Hér er því um sambland af staðarnámi og fjarnámi að ræða þar sem ætlast er til að nemendur undirbúi sig bæði í verklegum og bóklegum atriðum heima.

 

Námskeiðið er byggt upp af námi í reiðmennsku og er megináherslan lögð á það en einnig er þetta almennt nám um m.a. sögu og þróun hestsins, fóðrun hans og frjósemi og kynbætur. 

 

Náminu er því skipt í eftirfarandi áfanga og einingar:

1. Hestamennska (8 ECVET)

2. Reiðmennska I og II (17 ECVET)

3. Keppni og kynbætur (8 ECVET)

 

Verkefnisstjóri námsins er Ásdís Helga Bjarnadóttir hjá Endurmenntun LbhÍ, hún veitir einnig allar nánari upplýsingar. Faglegir umsjónarmenn námsins eru Reynir Aðalsteinsson tamningameistari og Þorvaldur Kristjánsson kynbótadómari, sérfræðingar hjá LbhÍ.

 

Umsóknarfrestur í Reiðmanninn er til 6. ágúst næstkomandi fyrir námsárin 2010-2012.

 

Staðsetning:

Stefnt er að því að bjóða Reiðmanninn fram í öllum fjórðungum landsins ef áhugi er fyrir hendi og næg þátttaka fæst;

 

á Héraði,

á Akureyri,

í Borgarfirði,

á Flúðum og

á Höfuðborgarsvæðinu

Viðkomandi umsækjandi getur óskað eftir því að taka námskeiðið á einum af þessum stöðum, annars gildir nálægð við ritað lögheimili.