þriðjudagur, 15. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reiðmaðurinn 2018-2020

Óðinn Örn Jóhannsson
6. mars 2018 kl. 08:14

Nemendur og kennarar í Reiðmanninum 2012 á Hvanneyri.

Viltu bæta þína reiðmennsku? Þá ættir þú að skoða námið í Reiðmanninum!

Reiðmaðurinn er nám ætlað fróðleiksfúsum hestamönnum og áhugafólki um reiðmennsku sem vill auka við þekkingu sína og færni í reiðmennsku, hrossarækt og almennu hestahaldi.

Námskeiðið er byggt upp á námi í reiðmennsku og er megináherslan lögð á það en einnig er þetta almennt bóklegt nám um m.a. sögu og þróun hestsins, fóðrun hans, frjósemi og kynbætur. Reiðmaðurinn er tveggja ára nám og er metið til 33 ECVET-eininga á framhaldsskólastigi. 

Reiðmaðurinn er nám í hestamennsku sem hefur undanfarin ár notið mikilla og vaxandi vinsælda meðal hestamanna á Íslandi.

Uppbygging námsins

Námið er byggt upp sem röð af helgarnámskeiðum þar sem nemendur koma að jafnaði einu sinni í mánuði með sinn hest og taka fyrir ákveðinn hluta af reiðmennskunni. Einnig er farið yfir bóklegt efni í fyrirlestrum og með fjarnámi. Hér er því um sambland af staðarnámi og fjarnámi að ræða þar sem ætlast er til að nemendur undirbúi sig bæði í verklegum og bóklegum atriðum heima. 

 Við erum nú í óða önn að leggja lokahönd á að undirbúa næsta tímabil hjá okkur og erum að skoða staðsetningar til að fara af stað með nýja hópa á haustönn 2018 og hvetjum hestamannafélög og hópa til þess að hafa samband.

Ef áhugahópur er til staðar innan ákveðins hestamannafélags kemur vel til greina að hefja næsta skólaár á viðkomandi stað, uppfylli staðurinn þær kröfur sem settar eru vegna kennslunnar og næg þátttaka fyrir hendi. Hafið samband við Endurmenntun LbhÍ og málið verður skoðað. 

Upplýsingar um þetta áhugaverða nám er að finna á vefsíðu Landbúnaðarháskóla Íslands á www.lbhi.is  undir flipanum endurmenntun og námskeið.

Nánari upplýsingar veitir Hinrik Þór Sigurðsson reiðkennari og verkefnisstjóri verklegrar kennslu í Reiðmanninum á netfangi hinrik@lbhi.is eða í síma 8435377