fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reiðlist - Reynir Aðalsteinsson

28. september 2009 kl. 12:31

Reiðlist - Reynir Aðalsteinsson

Við heyrum sjaldnar minnst á reiðlist, listamann/konu, í sambandi við reiðmennsku og hestamennsku en áður. Við heyrum oftar: mikill keppnismaður, skeiðreiðarmaður, íþróttamaður. Einhvern tíma fórum við að láta verkin tala og treystum þar um of á dómara sem síðan stjórna reiðmennskunni. Þeir eru misvitrir eins og aðrir og sjá reiðlistina með sínum augum. Þeir sjá hraða, fótaburð, takt og hvort hesturinn sýnist viljugur að þeirra mati. Þetta eru góðir eiginleikar, en þetta er ekki eini mælikvarðinn á það hvort um góða hestamennsku eða reiðlist er að ræða.

Það er langur vegur á milli þess hvort hestur er undir stjórn, svarar ábendingum af því hann kýs það sjálfur og þær hjálpa honum að ná valdi á líkama sínum og jafnvægi til afreka, eða hesti sem ver sig gegn ábendingum á annarri hlið eða báðum, heldur tilviljunarkennt gangi eða jafnvægi beint eða á afmörkuðum hring, spenntur og hræddur.

Það er líka langur vegur á milli þess að geta látið fullmótaðan hæfileikaríkan hest hlaupa gangtegundir til afreka sem annar hefur þjálfað og undirbúið og að temja hest til slíkra afreka; fá hann til að skilja og svara ábendingum fús af eigin vilja, vera samspora með sterka og fjaðrandi yfirlínu og hringaðan makka, lágan á lend og háan um herðar á öflugum takthreinum gangi. Það er reiðlist!

Samstilling – samhljómur – kadenz

Kadenz er alþjóðlegt orð úr hljómlistarmáli og er notað yfir það þegar hljómsveit spilar eða þegar fleiri syngja og hljóðfærin eru stillt saman eða raddirnar hljóma saman, t.d. í endatón. Mér finnst vel við hæfi að líkja reiðlist við hljómlist því þetta á svo margt sameiginlegt. Og þurfum við nokkuð annað en líta á mörg hestanöfnin: Ómur, Hljómur, Hrynjandi o.s.frv.?

Hvað er samstilling eða kadenz í reiðlistinni? Það er hrynjandi aukins vilja undir stjórn þar sem hestur lætur að öllum ábendingum án þess að verja sig og hreyfir sig frá einni hreyfingu í aðra með sterka yfirlínu og hringaðan makka. Slík reiðlist er árangur mikils undirbúnings og þjálfunar. Hestur, sem er samstilltur, er ekki sofandi hestur, heldur er það hestur sem þú getur verið rólegur á en er áfram kraftmikill. Án samstillingar en engin nothæf reiðmennska, því ef við missum hana þá tekur hesturinn ráðin. Það er ekki þar með sagt að hann rjúki, en hann missir traustið á okkur sem leiðtoga og fer að verja sig, t.d. fyrir taumhaldi, það gæti þess vegna verið á feti.

Það eru til knapar og hestar þar sem hesturinn er búinn að taka ráðin í sínar hendur því hann treystir ekki knapanum og heldur leiðtogahlutverkinu alla tíð. Knapinn er hreykinn af því hann stendur í þeirri trú að þetta sé vilji.

Vilji – orka – einbeiting

Til að ná samstillingu fljótt og vel nægir oft að hafa nægan vilja, orku, einbeitingu. Ég nota þessi þrjú orð af því mér finnst gæta misskilnings hjá mörgum hvað sé vilji, en hann er orka og einbeiting. Hesturinn getur ekki notað viljann án samstillingar og engin samstilling er án vilja. Vilji er andlegt og líkamlegt ástand hestsins til að svara ábendingum knapans fljótt og vek, fara einbeittur áfram og halda framgangi án aðstoðar. Hestur sem er viljugur er sá sem í æfingu eða á gangtegund heldur samstillingu ána þess að vera borinn uppi af knapanum.

Það eru heimar og höf á milli uppnáms og vilja. Vilji er meira fiðringur í hestinum en ekki endilega metinn eftir hlaupunum sjálfum. Við verðum að lána hestum vilja sem fá hann ekki í vöggugjöf, með hvatningu, en oft dugar að hægja ferðina til að ná orku og einbeitingu hjá slíkum hestum.

En það erfiðasta við að ná upp eða halda nothæfum vilja er að skaða ekki spennu með of mikilli þvingun, t.d. þegar viljugir hestar eru þvingaðir með því að toga stöðugt í þá, eða þegar minna viljugir hestar eru stöðugt hvattir. Æskilegast er að á upp nægum vilja og einbeitingu, sem hæfir viðkomandi gangtegund, æfingu eða hraðaaukningu. Þá gerir hesturinn æfinguna mikið til sjálfur, með lágmarks ábendingum. Þá er líka minni hætta á að knapinn verði ofvirkur á meðan hesturinn gerir æfinguna eða gangskiptinguna, gengur eða hleypur gangtegundina eða hraðaaukninguna.

Söfnun – burður – að setjast – lækka lend

Þetta eru allt orð sem notuð eru um það þegar hestur er undirbúinn fyrir erfiðar æfingar og sér í lagi tölt. Hann er þá samstilltur og viljugur, léttur við taum og með hringaðan makka þannig að taumhaldið virkar á hálssetninguna (höfuðburðinn). Þá byrjar söfnunin þar, um herðar brjóst og bóga. Af hverju brjóst? Jú, því brjóstkassa hestsins er haldið uppi að meira eða minna leyti af vöðvum, hann hefur ekki viðbein eins og við. Þess vegna þarf hann að ná góðum tökum á honum, halda honum vel uppi. Þá nær hann sterku og fjaðrandi baki og getur lækkað lendina. Þetta er allt nauðsynlegur undirbúningur fyrir burðinn, söfnunina og síðan töltið.

„Staðreyndir“ víkja fyrir vísindum

Hingað til hefur það verið trú manna að samhliða söfnun þá gangi hesturinn meira inn undir sig og taki við meiri þyngd á afturfæturna en framfæturna. Nýlegar rannsóknir við Dýralæknaháskólann í Vín í Austurríki sýna með nákvæmum mælingum (með mismunandi hestum og mismunandi knöpum við mismunandi æfingar) að þetta er rangt.

Dr. Michael Kapaun fullyrðir að það að hestur gangi innundir sig sé háð hraða og hestur taki ekki meiri þyngd á afturfæturna heldur en framfæturna þegar hann er safnaður. Hann beri þyngdina einungis lengur með afturfótum, þannig að á tölti og í erfiðum burðaræfingum hafi hesturinn afturfótinn lengur á jörðu en ella.

Mér finnst þetta sannfærandi. Hestur frjáls (ekki riðið) eða á lulli ber um 60% áframpartinum. Hestur á tölti jafnar burðinn með því að beygja vel liði í afturfótum og bera þyngdina lengur en ekki meira. Við það seinkar hann aftur fætinum á jörðu en flýtir framfætinum, þannig að hann er lengur á lofti. Við þetta lækkar hesturinn að aftan en hækkar að framan.

Að þekkja samspil vöðva og ábendinga

Magnús Lárusson minntist á mikilvægan vöðva í sinni ágætu og fróðlegu grein um hreyfigetu í ágústhefti Eiðfaxa á þessu ári. Þessi vöðvi er hálsrifjavöðvinn, sem tengir neðstu hálsbeinin við fremstu rifin sitt hvoru megin og heldur á móti til að bakvöðvar geti strekkst og allt bakið lyfst þegar hestur lækkar lend með því að draga saman magavöðva og beygja liði í afturfótum. Þessi vöðvi er tekinn úr sambandi ef hestur ver sig fyrir taumsambandi eða ganar. Þess vegna getur hestur aðeins fullkomnað söfnunina ef hann er réttur við taum, í hnakkabeygju með hringaðan makka, taumsambandið virkar á hálssetningu og þar með á allan hestinn en ekki bara á höfuð hans.

Mörg okkar hafa örugglega upplifað það eða séð þegar hestur gengur þvingað á hægu tölti vegna þess að knapinn gefur rangar bendingar. Við höfum líka séð hesta ganga óþvingað og takthreint ef þeim er reiðið frjálslega með lítið eða ekkert taumsamband á meiri hraða. Þá er það þetta sem gerist: Við það að fá frjálsræðið fellir hesturinn hálsinn og setur hálsrifjavöðvann í samband sjálfur og getur gengið með sterkt fjaðrandi bak. Þess vegna er það, að annað hvort hjálpum við ekki hestinum eða að við stöndum ljóst og leynt í vegi fyrir að hann geti gengið rétt. Hestar eru líka misviðkvæmir fyrir þessu. Hestur með stuttan og lágt settan háls er viðkvæmari en hestur með lengri og hátt settan háls.

Það sorglega hins vegar í þessu sambandi er að hestar með of reistan háls geta verið hágengir í stuttan tíma, eða á meðan bakið heldur, vegna þess að það er vöðvi sem liggur frá bóglið um háls og upp í hnakka sem hefur áhrif á hæð og lengd framfótaskrefa, háð reisingu. Þess vegna er mikilvægt að lofa hestinum að hringa og fella hálsinn örlítið, ná tökum á framhlutanum, þar með talið brjóstkassanum og bakinu, og ná svo fram reisingunni þegar hesturinn fellir lend, dregur saman magavöðvana, kreppir liði í aftur fótum og dvelur með þá lengur á jörðu en á lofti og gengur öflugur fram.

Við höfum lært

Þótt Íslendingar hafi ekki langa hefð í reiðkennslu, hafa þeir hefð í hestamennsku og hafa haldið í hana ásamt reynslu gamalla reiðlistamanna. Við höfum verið dugleg að læra og tileinkað okkur nýjungar í reiðmennskunni og hættum vonandi aldrei að læra. Í dag njótum við góðs af því, sér í lagi hvað varðar líffræðina, að flestir okkar bestu reiðkennarar eru lærðir á landbúnaðarskólum. Það kemur sér vel að vita, t.d. hvaða hlutverki vöðvar, bein, sinar og bönd hafa að gegna. Reiðmennska byggir á þremur þáttum: Tilfinningu og meðfæddum hæfileikum, hæfni – það að gefa hesti réttar ábendingar, og í þriðja lagi vísindum. Það á meðal annars við um það sem við höfum verið að fjalla um hér. Þeir sem voru á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi nú í sumar gátu séð að það vannst á þessum þáttum. Hestakosturinn er orðinn svo áþekkur og mikill að það er reiðlistin sem ræður úrslitum.

Það var ánægjulegt að dómararnir skyldu sjá þetta svona en sorglegt aftur á móti að þeir þurftu samanburð hestanna til að fá réttu úrslitin. Það er tilhlökkunarefni ef jafn góður hestakostur og fáguð reiðlist verða dómurunum að leiðarljósi á komandi árum. Þá þurfa orð portúgalska reiðsnillingsins Nuno Olívíera ekki að glatast þegar hann sagði: „Reiðlist er ekki endilega að reyna með ofurkappi að þóknast einhverri dómnefnd, heldur er reiðlist eintal við hestinn í leit að samkomulagi og fullkomnun.“

Eiðfaxi, 10.tbl. 1999 / Reynir Aðalsteinsson, meistari og reiðkennari A hjá FT.