mánudagur, 11. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reiðlag íslendinga

30. nóvember 2014 kl. 15:00

Glöggt er gests augað.

Gaman er að grúska í gömlum bókum og lesa umsagnir um reiðlag íslendinga hér áður fyrr. Frásögn Daniel Brunn frá ferðalögum sínum um Ísland í kringum 1908 er skemmtileg en hann safnaði ótal heimildum um íslenska hestinn. Telur hann reiðvenjur Íslendinga vera gjörólíkar því sem hann var vanur að sjá og beita. “Íslendingar kunna ekki að stjórna hesti með “taumi og lærum”. Reiðmaðurinn situr fastur í hnakknum og hvetur hestinn með því að berja fótastokkinn. Sérstakar beislisstengur eru notaðar og gripið hart í munn hestinum, en annars fær hann að hreyfa sig frjálslega og án þvingunar, ef hann aðeins heldur réttri stefnu og fer svo hratt sem óskað er. ... Íslenskir hestar bera sig yfirlett illa eftir voru mati. Íslendingar kunna þó vel að meta góðan knapa og vel taminn hest.”

Frásögn Georg H.F. Schrader í bók sinni Hestar og reiðmenn á Íslandi er nokkuð svipuð en það kom honum á óvart líkt og Daniel Brunn hvað íslendingar væru langt á eftir í ýmsum málefnum sem snerti íslenska hestinn en hann taldi reiðlag íslendinga afleitt. “Sumir karlmannanna fara prýðilega vel á hestbaki; þeir eru sterklega og tígulega vaxnir, í lágum stígvélum eins og bændur í Ameríku hafa, en ætíð sporlausum; en þeir hafa nærfelt altaf íslenzka svipu; stuttan silfurbúinn staf með leðuról í. Allur limaburður þeirra er réttur og hermannalegur.

En færri eru þeir, karlmennirnir, sem ríða svona vel; að minsta kosti ríða þeir ekki fallega. Margir eru þeir, sem lafa lauslega í hnakknum, og það er eins og þeir ætli að láta tærnar dragast með jörðinni. Sumir halda dauðahaldi utan um hestinn með fótunum ... Flestir reiðmenn berja sífeldan fótastokk, eins og þeir væru að baða vængjum, hvort sem farið er fót fyrir fór, á brokki eða stökki; margir iða líka með höndunum og öxlunum, veifa svipunum í loftinu yfir hestunum og eru að smáslá í þá hvað ofan í annað.”

Heimild: Brunn, Daniel. Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár.