fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reiðarslag fyrir Skagfirðinga

16. október 2014 kl. 10:20

Blikur eru á lofti um að Landsmót verði ekki haldið á Vindheimamelum árið 2016.

Landsmót verður líklega ekki haldið í Skagafirði árið 2016.

Stjórn Landssambands hestamannfélaga hefur tilkynnt Gullhyl ehf. að það treysti sér ekki til að halda Landsmót hestamanna á Vindheimamelum í Skagafirði árið 2016.

Jónínu Stefánsdóttur, talsmanni Gullhyls, var kynnt niðurstaða stjórnar á símafundi sl. þriðjudag. ,,Haraldur, formaður LH, tjáði mér að þeir ætluðu að færa mótið til þéttbýlisins og þá væntanlega til Reykjavíkur."

Jónína segir að stjórn Landsmóts ehf. hafi beðið um frestun á undirritun samnings um mótið sl. vor, þar til eftir landsmótið á Hellu núna í sumar. Við því var orðið en í kjölfarið undirrituð viljayfirlýsing til staðfestingar þess að mótið yrði á Vindheimamelum tiltekna daga sumarið 2016, eins og þegar hafði verið samþykkt í stjórn LH. Jónína segir lítið hafi heyrst frá Landsmóti ehf. og LH fyrr en formaðurinn boðaði fund með stuttum fyrirvara sl. laugardag, en þá hefðu forsvarsmenn sveitastjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar ekki komist. Því hafi símafundur farið fram á þriðjudag, sem Jónína hélt að myndi fjalla um áframhaldandi samningagerð við Gullhyl. Svo varð ekki.

,,Tilkynningin kom eins og þruma úr heiðskýru lofti enda höfðu samningsaðilar átt nokkra mjög góða og uppbyggilega fundi fram að því og hugur í öllum um að standa fyrir glæsilegu móti á Vindheimamelum. Haraldur gat ekki gefið neina skýra ástæðu fyrir þessari skyndilegu og óvæntu stefnubreytingu en sagði þó að óhagstætt væri að flytja tjöld norður í land. Hann nefndi að mótið árið 2011 hafi ekki borið sig og að mótið myndi ekki standa undir sér nema það yrði haldið í þéttbýli."

Jónína segir ótækt að miða við mótið sem haldið var á Vindheimamelum árið 2011, enda hafi aðstæður þar verið óeðlilegar vegna frestunar mótsins. ,,Það reyndist vera fyrsta og eina mótið sem haldið hefur verið á Vindheimamelum sem ekki hefur staðið undir sér," segir Jónína. og bætir við að henni finnist vinnubrögð formanns LH afar ódrengileg.

Hafa ekki sagt síðasta orðið

Stjórn LH ákvað að ganga til samninga við Gullhyl ehf. í desember árið 2011, um að halda Landsmót 2016 á Vindheimamelum. Þann 5. maí sl. undirrituðu fulltrúar frá LH, Gullhyl og Sveitafélaginu Skagafirði og Akrahreppi viljayfirlýsingu um að halda glæsilegt og skemmtilegt landsmót hestamanna dagana 27. júní - 3. júlí árið 2016 og í fundargerð stjórnar LH um miðjan maí segir frá jákvæðum anda Skagfirðinga gagnvart Landsmótinu.

Jónína segist nú ætla að kanna hvaða leiðir Gullhylur ehf. geti farið. ,,Samningsaðilinn um mótið er Landsmót ehf. en við höfum ekki fengið nein skilaboð frá stjórninni þar. Samkvæmt lögum LH á einnig að vera búið að ákveða landsmótsstað a.m.k. 5 árum fyrir það mót sem um ræðir og staðarval ekki endurskoðað nema samningar náist ekki við mótshaldara. Ekki hefur reynt á neina samningagerð enn sem komið er þar sem hvorki stjórnir LH né LM hafa gengið til neinna samningaviðræðna við Gullhyl, eins og þó var boðað að farið yrði í að loknu mótinu á Hellu í sumar. Ef þetta nær fram að ganga hefur þetta geysileg áhrif á okkur og í raun alla landsbyggðina. En ekki er búið að segja síðasta orðið í þessu máli."

Samkvæmt upplýsingum mun stjórn LH funda í hádeginu og gefa frá sér yfirlýsingu síðar í dag.