laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Regluverk, fósturvísaflutningar og heilbrigði hófa til umræðu

8. febrúar 2014 kl. 16:15

Gunnar Sturluson tók við formennsku FEIF við upphaf þingsins í gær.

Ráðstefna FEIF stendur yfir í Reykjavík.

Um helgina stendur yfir fulltrúaþing FEIF á Hótel Natura í Reykjavík en á þingið eru komnir saman 120 fulltrúar allra þjóða innan alþjóðasamtakanna.

Ný stjórn var kosinn og er Gunnar Sturluson nú forseti FEIF. Doug Smith frá Bandaríkjunum er nýr leiðtogi íþróttamála, Marlise Grimm heldur áfram sem leiðtogi ræktunarsviðs, Silke Feuchthofen nýr leiðtogi fræðslumála 
og Gundula Sharman nýr leiðtogi æskulýðsmála.

Fráfarandi forseti FEIF, Jens Iversen hlaut heiðursverðlaun félagsins ásamt Marko Mazeland, fráfarandi leiðtogi íþróttasviðs, Anne Levander, fráfarandi leiðtogi æskulýðsmála og Þorgeiri Guðlaugssyni fyrir framlag sitt til FEIF frá árinu 1988, en hann hannaði nýjan leiðara fyrir dómara í íþróttakeppni.

Pallborðsumræður ráðstefnunnar eru af ólíkum toga.

Í gær kynntu prófessorar við háskólann í Zurich niðurstöður rannsókn á heilbrigði hófa. Samkvæmt niðurstöðunum mæla þeir sterklega með því að takmarka lengd hófa í amk. 95 mm, en niðurstöður sýndu að hægt væri að tengja hófamein við lengri hófa.

Í dag var rætt um að banna klónun íslenskra hrossa og flutning fósturvísa í önnur hestakyn. Erlendis hafa verið gerðar tilraunir með að flytja egg úr íslenskum hryssum í erlenda hrossastofna, en ekki er vitað um áhrif þess á erfðaefni folaldsins eða áhrif móðurmjólkur og hegðun fósturmóðurinnar á einkennum folaldsins. 

Á morgun verðua svo kynnt drög að lögum og reglum FEIF. Undanfarin ár hefur farið fram viðamikil heildarendurskoðun á regluverki samtakanna, með það fyrir augum að einfalda og samræma lög og reglur.