þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reglurnar ræddar á knapafundi

29. júní 2014 kl. 22:25

Fjölmennt var á knapafundi Landsmóts sem haldinn var í kvöld.

Keppendur uggandi yfir slæmu veðurútliti.

Knapar mega ekki nota písk á  mótssvæði Landsmótsins, engin samskipti mega vera á milli keppenda og þjálfara á upphitunarsvæði og stökksprettur barnaflokksins fer fram fjær áhorfendum. Þetta og fleira kom fram á knapafundi Landsmótsins sem haldið var undir kvöld.

Þar fór Sigurður Straumfjörð yfirdómari gæðingakeppni mótsins yfir reglur keppninnar, en auk hans svöruðu Sigurður Ævarsson, mótstjóri, Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir og Axel Ómarsson, framkvæmdastjóri Landsmótsins spurningum þátttakenda.

Samræmi þarf að gæta milli sýninga í sérstakri forkeppni; riðið er upp á vinstri hönd og ber börnum að sýna stökksprett sinn nær dómurum, sem er fjær áhorfendum. Börnin voru minnt á að sýna gæði umfram hraða á gangtegundum. Þá bað hann knapa í A-flokki gæðinga að athuga vegalengd skeiðsprettsins, en afmarkaður kafli beinnar brautar milli skammhliða mun vera sá partur brautarinnar þar sem gæðingurinn er í dómi. Sigurður áréttaði að allir knapar ættu að mæta beint í fótaskoðun úr braut.

Spurningar úr sal voru fjölmargar.  Furðuðu sig nokkrir á því að ekki mætti nota písk inn á mótsvæði ef pískur væri bannaður í keppninni. Sigurður sagði ástæðuna vera þá að sömu reglur giltu innan og utan vallar og að keppendur í ungmenna og fullorðinsflokkur mættu ekki nota písk.

Þá varaði Sigurður við samskiptum keppenda við þjálfara eða aðra aðstandendur í upphitunarhring og á keppnisvellinum. Keppendur geta átt von á gulu spjaldi frá dómurum ef upp kemst um slíkt.

Þá höfðu þátttakendur nokkrar áhyggjur af því að verður setti strik í reikninginn, en Veðurstofan spáir leiðinlegu veðri, bæði hvössu og votviðrasömu. Axel Ómarsson sagði að gert yrðu viðeigandi ráðstafanir ef til illviðris kæmi.

Sigríður Björnsdóttir áréttaði að allir hestar þyrftu að gangast undir heilbrigðisskoðun fyrir keppni en allir hestar eiga að gangast undir heilbrigðisskoðun 24-2 tímum fyrir innkomu í braut.  Hekla Katharína Kristinsdóttir var kjörin fulltrúi knapa í dómaranefnd. Sigurður vísaði öllum fyrirspurnum þátttakenda til sín og Sigurðar Ævarssonar mótstjóra, þeir væru tengiliðir keppenda við dómara.