þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Refsingin milduð í 30 daga

20. júní 2014 kl. 21:31

Þorvaldur Árni á Þrumufleyg frá Álfhólum

Yfirlýsing frá Þorvaldi Árna

Þorvaldur Árni Þorvaldsson harmar að hafa brotið lög ÍSÍ um lyfjamál og einsetur sér að læra af mistökunum. Hann hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna dóms áfrýjunardómstóls ÍSÍ sem féll í gær:

Til þeirra er málið varðar.

Ég, Þorvaldur Árni Þorvaldsson, staðfesti að við mælingu Lyfjaeftirlitsnefndar ÍSÍ hinn 6. mars sl. mældust leifar af efni á bannlista ÍSÍ í líkama mínum. Það leiddi til þess að ég var kærður til dómstóls ÍSÍ sem komst að þeirri niðurstöðu að ég skyldi sæta þriggja mánaða keppnisbanni. Mér þótti sú refsing hörð og áfrýjaði því dóminum til áfrýjunardómstóls ÍSÍ sem mildaði refsinguna í 30 daga keppnisbann frá og með 30. maí sl.

Ég tek fram að ég neytti umræddra lyfja viku áður en mæling fór fram og var ekki undir áhrifum þeirra í keppni. Því er alveg víst að þau höfðu engin áhrif á árangur minn. Lyfið mælist aftur á móti við sýnatöku í alllangan tíma eftir neyslu.

Ég harma mjög þau mistök mín að hafa brotið lög ÍSÍ um lyfjamál og hef einsett mér að læra af þessum mistökum þannig að slíkt gerist aldrei aftur.

Virðingarfyllst,

Þorvaldur Árni Þorvaldsson