miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráslisti í Gæðingafimi

22. febrúar 2017 kl. 12:30

Árni Björn og Skíma sigruðu gæðingafimi MD2016.

Kvöldið verður magnað í Samskipahöllinni í meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum

Það stefnir í svakalega veislu í gæðingafimi í meistaradeildinni í hestaíþróttum, sem þetta skiptið fer fram í Samskipahöllinni í Spretti næstkomandi fimmtudagskvöld. Það er nánast ómögulegt að spá fyrir um sigurvegara, svo sterkur er hestakosturinn hjá þeim gæðaknöpum sem ríða þessa keppni.

Sigurvegari síðastliðins árs Árni Björn Pálsson mætir með hestagullið Skímu frá Kvistum og er hún orðin árinu eldri og reynslunni ríkari þannig að þau eru til alls líkleg. Jakob Svavar Sigurðsson átti eftirminnilega sýningu í gæðingafiminni í fyrra á Gloríu frá Skúfslæk, þau mæta aftur og ætlar Jakob sér að gera betur en í fyrra og ná sér í efsta sætið. Ásmundur Ernir Snorrason varð í þriðja sæti í fyrra á Spöl frá Njarðvík, hann mætir sterkur til leiks á honum.
Liðið sem má segja að hafi átt kvöldið í fjórgangnum, Gangmyllan, stillir upp sterku liði og sendir sömu pör aftur til leiks þau Berg og Kötlu, Elín og Frama og Freyju og Álfastjörnu. Það ætti ekki að teljast ólíklegt að árangur þeirra yrði svipaður í gæðingafimi og hann var í fjórganginum. Það er gaman að sjá að skráð eru til leiks Sylvía Sigurbjörnsdóttir og Héðinn Skúli frá Oddhól en þau hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi þeirra sem þau líta og munu að öllum líkindum sýna okkur skemmtileg tilþrif. Sigurður Óli Kristinsson mætir með stórgæðinginn Hreyfil frá Vorsabæ sem hestamenn sáu á stóðhestaveislunum í fyrra með kraftmikið og mjúkt atriði og eru þeir líklegir til þess að blanda sér í toppbaráttuna. Guðmundur Björgvinsson og Straumur frá Feti virtust ná vel saman í sinni fyrstu keppni í fjórgangnum og miðað við standið á þeim þar munu þeir gera tilkall til sigurs.
Hans Þór Hilmarsson hefur undanfarin ár sýnt Lukku-Láka frá Stóra-Vatnsskarði með góðum árangri hvort sem er í kynbótadómi eða íþróttakeppni og nú verður gaman að sjá hvað þeir geta töfrað fram í gæðingafimi. Ragnar Tómasson og Sleipnir frá Árnanesi voru rétt fyrir utan úrslitin í gæðingafimi í fyrra og ætla sér núna að fá að sýna sitt prógram tvisvar og ríða til úrslita.

Þetta er aðeins brot af þeim pörum sem keppa til sigurs í gæðingafimi annað kvöld. Það má fullyrða að kvöldið verði hið glæsilegasta í alla staði og enginn hestamaður má láta það framhjá sér fara.

Dagskrá

 17:00 Húsið opnar
18:00 Dómarar spjalla - Hvernig dæmum við gæðingafimina
18:30 Upphitunarhestar - Heimsmeistarinn Kristín Lárusdóttir og sigurvegari parafiminnar í Suðurlandsdeildinni Lea Schell
19:00 Keppni hefst

Ráslisti

1       Eyrún Ýr Pálsdóttir                     Hafrún frá Ytra-Vallholti  Hrímnir/Export hestar
2       Lena Zilenski                                Sprengihöll frá Lækjarbakk  Lýsi/Oddhóll/Þjóðólfshagi
3       Sylvía Sigurbjörnsdóttir           Héðinn Skúli frá Oddhóli     Auðsholtshjáleiga
4       Guðmar Þór Pétursson           Brúney frá Grafarkoti      Heimahagi
5       Sigurður Vignir Matthíasson  Arður frá Efri-Þverá     Ganghestar/Margrétarhof
6       Sigurður Sigurðarson                Dreyri frá Hjaltastöðum   Lýsi/Oddhóll/Þjóðólfshagi
7       Sigursteinn Sumarliðason       Háfeti frá Hákoti     Heimahagi
8       Árni Björn Pálsson                     Skíma frá Kvistum   Top Reiter
9       Guðmundur Björgvinsson      Straumur frá Feti     Árbakki/Hestvit/Svarthöfði
10     Bergur Jónsson                           Katla frá Ketilssöðum   Gangmyllan
11     Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir  Óskar frá Breiðstöðum  Ganghestar/Margrétarhof
12     Jakob S. Sigurðsson                  Gloría frá Skúfslæk  Top Reiter
13     Sigurbjörn Bárðarsson             Nagli frá Flagbjarnarholti  Lýsi/Oddhóll/Þjóðólfshagi
14     Ragnar Tómasson                      Sleipnir frá Árnanesi  Árbakki/Hestvit/Svarthöfði
15     Kári Steinsson                             Binný frá Björgum  Hrímnir/Export hestar
16     Janus Halldór Eiríksson            Hlýri frá Hveragerði  Auðsholtshjáleiga
17     Sigurður Óli Kristinsson           Hreyfill frá Vorsabæ   Heimahagi
18     Hanna Rún Ingibergsdóttir     Mörður frá Kirkjubæ  Hrímnir/Export hestar
19     Hans Þór Hilmarsson                Lukku-Láki frá Stóra-Vatnsskarði  Ganghestar/Margrétarhof
20     Teitur Árnason                            Jarl frá Jaðri                                              Top Reiter
21     Hinrik Bragason                          Pistill frá Litlu-Brekku                           Árbakki/Hestvit/Svarthöfði
22     Freyja Amble Gísladóttir         Álfastjarna frá Syðri-Gegnishólum Gangmyllan
23     Ásmundur Ernir Snorrason    Spölur frá Njarðvík                                Auðsholtshjáleiga
24     Elin Holst                                       Frami frá Ketilsstöðum                        Gangmyllan