laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rannsókn á mati á vilja og geðslagi

odinn@eidfaxi.is
30. maí 2014 kl. 09:13

Frá Landsmóti á Gaddstaðaflötum 2008.

Stutt könnun lögð fyrir knapa á Gaddstaðaflötum.

Á kynbótasýningunni á Gaddstaðaflötum í byrjun júní næstkomandi verður lögð fyrir sýnendur stutt könnun varðandi mat á vilja og geðslagi sýndra kynbótahrossa. Þessi könnun er upphafið af fyrirhugaðri rannsókn á mati á vilja og geðslagi íslenskra kynbótahrossa sem er lokaverkefni Heiðrúnar Sigurðardóttur til meistaragráðu í hestafræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Á málþingi um kynbótakerfið í hrossarækt á Hvanneyri þann 6. september síðastliðinn kom það almenna álit í ljós að betur má gera í mati á eiginleikanum vilji og geðslag. Vilji og geðslag er einn mikilvægasti eiginleikinn í mati á gæðum kynbótahrossa og því nauðsynlegt að hann sé metinn á sem raunhæfastan hátt. Gerð þessarar rannsóknar mun vonandi nýtast í þróun á betra mati á eiginleikanum.

Könnunin sem lögð verður fyrir sýnendur/knapa felur í sér að sýnandinn svarar nokkrum spurningum eftir sýningu hvers hross og metur þjálni hrossins í sýningunni í nokkrum atriðum á dómkvarða sem skilgreindur er á spurningablaðinu. Hver sýnandi fyllir út jafnmörg spurningablöð og fjöldi hrossa sem hann sýnir.

Það er allra hagur, sem standa að ræktun íslenska hestsins, að rannsókn sem þessi skili sem bestum og markverðustu niðurstöðum, því er farið þess á leit við sýnendur að þeir taki sér tíma og leggi sig fram við að svara könnuninni samviskusamlega og á heiðarlegan hátt. Engum sýnanda er skylt að taka þátt í þessari könnun en öll samvinna er vel þegin.

Mikilvægar upplýsingar: Farið verður með öll gögn sem trúnaðarmál. Svörin við könnuninni verða eingöngu notuð til rannsókna og nöfn einstakra hrossa munu aldrei koma fyrir í niðurstöðum eða skýrslu. Úrvinnsla gagna krefst þess þó að nafn umrædds kynbótahross í dómi komi fram á spurningablaðinu.

HÉR má nálgast spurningablaðið sem lagt verður fyrir sýnandann. Gott væri ef sýnandi væri búinn að kynna sér spurningarnar og dómkvarða fyrir sýningu en spurningum skal ekki svarað fyrr en eftir sýningu hvers hross.

Á næstu dögum verður haft samband við sýnendur og farið betur yfir þau atriði sem lúta að þeim.

Fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við Heiðrúnu Sigurðardóttur: heidrunrun@gmail.com eða í síma 6983950.