mánudagur, 21. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ræktunardagur Suðurlands

odinn@eidfaxi.is
8. apríl 2014 kl. 11:43

Stóðhestadagurinn verður veglegur að vanda.

Mikið að gerast 26.apríl

Laugardaginn 26.apríl næstkomandi verður mikið um að vera á suðurlandi því að þann dag eru tveir stórir viðburðir. 

Í tengslum við útgáfu stóðhestablaðs Eiðfaxa mun Eiðfaxi ásamt Hestamannafélaginu Sleipni á Selfossi standa fyrir stóðhestadegi að Brávöllum á Selfossi. Í fyrra var dagurinn haldinn í annað sinn og talið er að á annað þúsund áhorfendur hafi verið á Brávöllum.

Nú í ár verður dagurinn enn glæsilegri, margir af þekktustu stóðhestum hafa boðað komu sína og afkvæmahóparnir verða þó nokkuð fleiri en í fyrra.

Sýnikennslu verður í hléi og nokkrir þekktir stóðhestar verða til sýnis í stíum inni í reiðhöllinni. Allir þeir hestar sem eru með í stóðhestablaði Eiðfaxa eiga rétt á þátttöku á hátíðinni en þar mun fara fram kynning á ungum sem eldri stóðhestum á beinni braut, í anda sýninga stóðhestastöðvarinnar Gunnarsholts forðum. Það var fyrsta sýning vorsins utandyra og það muna margir eftir þeirri vorstemmningu sem þar var enda kom fólk alls staðar af landinu til að sjá marga af fremstu stóðhesta þess tíma. 

Aðgangur á Stóðhestadaginn verður ókeypis. 

Allar nánari upplýsingar  veitir Óðinn Örn í póstfanginu  odinn@eidfaxi.is

Um kvöldið verður svo stórsýningin RÆKTUN 2014 á vegum Hrossaræktarsamtaka Suðurlands í Ölfushöllinni, en þar munu koma fram mörg af bestu hrossum landsins, ræktunarbússýningar, afkvæmahópar og margt fleira.

Þetta er ein stærsta reiðhallarsýning ársins og viðburður sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.