mánudagur, 26. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ræktun í góðum gír

odinn@eidfaxi.is
28. apríl 2019 kl. 18:52

Magnús Bragi og Óskasteinn

Veisla fyrir hrossaræktendur í Fákaseli að Ingólfshvoli.

Í gærkveldi fór fram Ræktun, sýning Hrossaræktarsamtaka Suðurlands í nítjánda sinn og eins á undanfarin ár má segja að þessi sýning sé hápunktur reiðhallasýninga landsins. Það má hrósa samtökunum fyrir að hafa staðið fyrir þessari frábæru sýningu í nú næstur tvo áratugi og bætt við því áhugaverða framtaki sem Púlsinn var sem haldinn var í mars. Sýningin líkt og undanfarin ár var að uppistöðu hross frá sunnlenskum ræktendum en þó hafa samtökin oftast boðið áhugaverðum ræktunarhrossum utan svæðisins að taka þátt. Í þetta sinn má segja að gæsahúðaraugnablikið hafi verið þegar Magnús Bragi á Íbishóli í Skagafirði kom í salinn á gæðing sínum Óskasteini eftir að afkvæmi hans höfðu sýnt sig um stund. Segja má að þetta hafi verið nokkurs konar endurkoma þeirra félaganna sem hafa nú risið úr þeim dvala sem þeir voru í um stund. Magnús var klæddur upp í þessu tilefni og klárinn hefur ekki komið fram í svo góðu formi lengi.

Það voru þó nokkur áhugaverð ræktunarbú en sérstaklega er gaman að sjá ræktun yngri ræktunarbúanna sem eru að stíga upp um þessar mundir eins og Rauðalækur, Flagbjarnarholt og Þjórsárbakki sem öll voru með góða hópa að eldri þekktari búum ólöstuðum eins og Eystra-Fróðholti og Dalbæ sem kynntu sig vel á sýningunni.

Eins og fyrr sagði mörkuðu samtökin á sínum tíma þá stefnu að hafa einungis ræktunarhross á þessari sýningu og byggja hana upp á ræktunarbúum, afkvæmahópum og einstaklingakynbótahrossum. Þó hefur stundum brugðið út af þessari stefnu en skemmtileg undantekning var gerð á þessari reglu þegar Töltskvísur Suðurlands sýndu þaulæft atriði þar sem á fjórða tug kvenna sýndu hrossin sín af stakri prýði. Þetta atriði var skemmtilegt áhorfs en vekur mann einnig til umhugsunar um að notagildi hestsins okkar er mun víðara en sýningar- og kynbótahross sem var meginuppistaða sýningar sem þessarar. Það er jú í hlutverks brúkunarhestsins sem flest afkvæmi ræktunarinnar veljast í. Enda má auðveldlega rökstyðja það að góður, hreingengur, traustur reiðhestur sé það verðmætasta sem ræktunin skilar. Eins má segja að fagleg reiðmennska sé einn af þeim drifkröftum sem keyrt hefur framfarir í gæðum hrossa og ljóst er að framtíðin í þeim málum er björt því að í upphafi sýningarinnar komu verknemar frá Hólum fram með mjög flott atriði.

Gangmyllan sýndi skemmtilegt faglega útfært atriði en þau voru valin Ræktunarbú ársins í fyrra en afkvæmahópar voru nokkrir, Auðsdætur, Skýssynir, Lukku-Lákabörn, Kjarnabörn, afkvæmi Óskasteins og Kjerúlfs frá Kollaleiru, en að margra mati voru það afkvæmi Hrannars frá Flugumýri og Sjóðs frá Kirkjubæ sem vöktu mesta athygli. Hrannarsbörnin Hvellhetta frá Stangarlæk (sammæðra Kveik) og Blakkur frá Þykkvabæ voru gripamikil og þétt á gangi en einnig flugaefnilegur geldingur undan Sjóði Blængur frá Hofstaðaseli voru frábærir fulltrúar feðra sinna. Annar Sjóðssonur og öllu þekktari Kveikur frá Stangarlæk var svo lokaatriði sýningarinnar. Hann var sýndur af miklu öryggi af Aðalheiði Önnu, kraftmikill, geislandi mýktarhestur sem stendur fyllilega undir því að vera fremsti klárhestur heimsins í dag.

Samtökin og Viðar Ingólfsson sýningarstjóri eiga hrós skilið fyrir þessa frábæru sýningu og líklegt má telja að þeir bjóði til enn veglegri veislu á næsta ári þegar sýning þessi verður haldin í tuttugasta sinn.