föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Perla reynist Lenu vel-

10. október 2011 kl. 11:04

Perla reynist Lenu vel-

Ræktun Lenu Zielinski hefur í nokkur ár vakið athygli fyrir skemmtilega hæfileika, kraft og mikil afköst á gangi. Árið 2006 var jörp hryssa í eigu Lenu, Pandra Kolfinnsdóttir frá Reykjavík, þriðja sæti í flokki 4 vetra hryssa með 8,27 í aðaleinkunn. Pandra hefur nú gefið af sér fjögur afkvæmi og fór það elsta, Frumherji frá Hjarðartúni, undan Gaumi frá Auðsholtshjáleigu, fyrir dóm í vor fjögurra vetra gamall. Lena segist ætla að halda áfram að þjálfa hann í vetur en auk hans hefur hún í sumar frumtamið bróður Frumherja, Flögra frá Efra-Hvoli,  sem er undan Hugin frá Haga. „Hann er myndarlegur alhliðahestur með skemmtilegt ganglag og lofar mjög góðu,“ segir Lena. 

Jafnframt frumtamdi hún í sumar bróður Pöndru, sammæðra, stóran og myndarlegan hest að nafni Prinsinn frá Efra-Hvoli. „Prinsinn er undan Álfi frá Selfossi og fer einnig mjög vel af stað. Hann er glæsilegur og fór í ungfolasýningu í vor og fékk mjög góð ummæli frá dómara,“ segir Lena en spennandi verður að sjá alla þessa fola spreyta sig í kynbótasýningum í vor.
 
„Nú er ég að frumtemja fimm hryssur undan Pipar-Sveini frá Reykjavík sem er einnig sammæðra Pöndru og Prinsinum. Þrjár þeirra, Huldumey, Villimey og Piparmey, fékk ég í innflutningsgjöf þegar ég flutti á Efra-Hvol.  Það er því gaman að vera byrjuð að temja þriðju kynslóð frá Perlu,“ segir Lena en Perla þessi frá Ölvaldsstöðum er augljóslega að reynast Lenu afar vel og stefnir í að verða mikil ættmóðir. Hún hefur nú eignast tíu afkvæmi en auk þeirra Pöndru, Pipar-Sveins og Prinsins vakti sonur hennar, Patrik frá Reykjavík, nokkra athygli í ár og var m.a. sýndur á Landsmóti.
 
Í 7. tbl. Eiðfaxa eru viðtöl við eigendur nokkurra verðlaunahryssa, þar sem forvitnast er um afkvæmi þeirra sem nú eru í frumtamningu.