fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Peningaverðlaun á opnu Barkamóti 2010

11. mars 2010 kl. 08:57

Peningaverðlaun á opnu Barkamóti 2010

Peningaverðlaun á opnu Barkamóti 2010 - skráning á þriðjudag. Nú styttist í hið geysivinsæla Barkamót, sem haldið verður í Reiðhöllinni í Víðidal, laugardaginn 20. mars.

Skráning fer fram þriðjudaginn 16. mars kl. 20:00 – 21:00 í Reiðhöllinni. Einnig er hægt að skrá í síma 567-0100, 898-2018, 893-3559, 691-1115 gegn því að gefa upp kortanúmer fyrir skráningargjöldunum.

Við skráningu þarf að:
1.    gefa upp nafn og kennitölu knapa;
2.    gefa upp nafn og IS númer hests;
3.    greiða 2.500 kr. skráningargjald;
4.    skrá upp á hvora hönd riðið er.

Þátttaka á Barkamótinu 2010 er öllum opin. Keppt er í tölti í þremur flokkum: 17 ára og yngri, áhugamannaflokki og opnum flokki. Leyfilegt er að skrá fleiri en einn hest til keppni, en komi knapi fleiri en einum hesti í úrslit skal hann velja einn til úrslitakeppni. Hafi parið náð meistaraflokkseinkunn (6.5) í tölti á síðasta ári ber knapa að skrá sig í opinn flokk.

Peningaverðlaun eru veitt fyrir þrjú efstu sætin í opnum- og áhugamannaflokki. Í opna flokknum eru 50 þúsund krónur fyrir fyrsta sætið, 20 þúsund fyrir annað og 10 þúsund fyrir þriðja. Í áhugamannaflokki eru 20 þúsund fyrir fyrsta sætið, 10 þúsund fyrir annað og 5 þúsund fyrir þriðja. Gjafabréf verða fyrir sömu sæti í flokknum 17 ára og yngri. Að auki fá allir verðlaunahafar Marstall fóðurbæti að gjöf. 

Barki ehf. gefur öll verðlaun á mótinu.

Keppendum á Barkamótinu fjölgar ár frá ári og voru hátt í hundrað skráðir til leiks í fyrra. Hart var barist um efstu sætin, enda til mikils að vinna. Toppknapar á gæðingshryssum fóru þá með sigur af hólmi, Eyjólfur Þorsteinsson á Ósk frá Þingnesi í opnum flokki, Rúnar Bragason á Þrá frá Tungu í áhugamannaflokki og Ellen María Gunnarsdóttir á Lyftingu frá Djúpadal í flokknum 17 ára og yngri. Spennandi verður að sjá hverjir etja kappi í ár.

Við lofum blíðskaparveðri og stemmningu í Reiðhöllinni. Fjölmennum á Barkamót.

Með hestakveðju,
íþrótta- og mótanefnd Fáks.