fimmtudagur, 14. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Peningastyrkir til litföróttra og ýruskjóttra stóðhesta

28. október 2019 kl. 14:47

Gjafar frá Eyrarbakka

Niðurgreiða sýningagjöld og veita styrki til þeirra stóðhesta sem ná 1.verðlaunum í kynbótadómi

 

Fagráð í hrossarækt samþykkti á síðasta ári að verja 2,2 milljónum króna úr stofnverndarsjóði til að festa varanlega hið nýja litargen fyrir ýruskjóttum litamynstrum. En það voru Hrossaræktarsamtök Suðurlands sem beindu þessari áskorun til Fagráðs .

Hér fyrir neðan má sjá svar fagráðs:

Svar fagráðs: Í ljósi þess að komið hefur fram nýtt litaafbrigði í stóðhesti, ýruskjótt, hefur fagráð eftir áskorun frá Hrossaræktarsamtökum Suðurlands ákveðið að útvíkka þróunarverkefni sem sett var af stað af fagráði til bjargar litförótta litnum árið 1999. Í báðum tilvikum er mikilvægt að koma upp góðum litföróttum og ýruskjóttum stóðhesti (-um) sem líkur er á að verði notaðir og þannig náist að viðhalda og vernda þau litaafbrigði sem um ræðir.

Fagráð mun því verja til verkefnisins 2.2 milljón króna úr Stofnverndarsjóði. Fénu verður varið til að verðlauna tvo fyrstu litföróttu stóðhestana og tvo fyrstu ýruskjóttu stóðhestanna sem ná fyrstu verðlaunum í framtíðinni. Hver hestur hlýtur 500 þúsund krónur á núvirði í verðlaun en 200 þúsund krónum verður varið til að endurgreiða sýningargjöld litföróttra og ýruskjóttra hrossa. Hugmyndin með þessu er að hvetja ræktendur til að koma upp góðum litföróttum og ýruskjóttum stóðhestum og einnig að hvetja til þess að þau litföróttu og ýruskjótt hross sem til eru komi til dóms. Þetta ætti að ýta undir að ná þeim litföróttu og ýruskjóttu hrossum sem til eru í landinu inn í hinn virka hluta hrossastofnsins. Eigendur þessara hrossa verða að sækja formlega um styrk til stofnverndarsjóðs (hvort sem um það er að ræða að stóðhesturinn hljóti fyrstu verðlaun eða um endurgreiðslu á sýningargjaldi) og þau skilyrði eru fyrir styrknum að hrossin séu staðsett á Íslandi og að stóðhesturinn sem hlýtur fyrstu verðlaun sé laus við spatt og hafi ekki eistnagalla. Einnig fylgja þau tilmæli þessum fjárstuðningi að eigendur stóðhestanna bjóði aðgang að gripum sínum í að minnsta kosti tvö ár eftir að þeir hljóta styrkinn.