laugardagur, 17. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Pat Parelli á Íslandi

16. nóvember 2012 kl. 15:52

Hekla Hermundsdóttir er í fjarnámi hjá Pat Parelli og praktiserar ýmislegt "óhefðbundið" í hestamennsku sinni.

Það má ná ótrúlegum árangri í hestatamningum með jákvæðri styrkingu og að láta sér þykja vænt um hestinn

Hekla Hermundsdóttir er ung hestakona sem fer ekki troðnar slóðir. Hestablaðið sagði frá því í desemberblaði 2009 að á Ásmundarstöðum í Holtum væri hafin framleiðsla á kaplamjólk og það er einmitt Hekla sem var þar potturinn og pannan. Það hefur ekki gengið þrautalaust en Hekla hefur ekki gefist upp og er ennþá að.

Jafnframt því er hún á kafi í hestamennsku, þó ekki með hefðbundnum hætti. Hún hefur þegar lokið tveggja ára nám frá Hólaskóla og hefur nú tekið aðra stefnu og undanfarin misseri verið í fjarnámi hjá hinum virta "hestahvíslara" Pat Parelli, en kjörorð hans eru: Love - Language - Leadership.

„Ég hef einfaldlega ekki þá orku og þá hörku sem þarf til að ná árangri í reiðmennsku eins og hún er stunduð hér á landi,“ segir Hekla. Aðferðir Pat Parellis eiga betur við mig. Þær byggjast á jákvæðri styrkingu, það er í raun bannað að skamma hestinn. Þetta snýst ekki bara um að láta hesta gera einhverjar kúnstir, aðferðin nýtist allt frá leikjaplani og upp í meistarastig í dressur.

Það er alveg ótrúlegt hvað þetta er áhrifaríkt aðferð og maður trúir því ekki fyrr en maður sér og prófar. Ég valdi til dæmis sérstaklega hryssu í þetta verkefni sem var fordekruð. Hún lagðist aftur og aftur ef maður reyndi að hringteyma hana, uppfull af þrjósku. Í dag vill hún allt fyrir mig gera.“

Hér má sjá myndband af Heklu og vinkonu hennar í smá hestasprelli á YouTube. Það leikur enginn vafi á að Pat Parelli virkar hér á Fróni.