mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óvenjulegt hestfolald

Jens Einarsson
23. nóvember 2009 kl. 10:12

Bragi frá Litlu-Tungu slær í gegn

Bragi frá Litlu-Tungu er óvenjulegt hestfolald. Í fyrsta lagi er hann úrval í útliti, stór, háfættur og léttbyggður. Í öðru lagi þá hefur hann útgeislun, sem rekja má til forföðurins, Gusts frá Sauðárkróki. Eða kannski formóðurinnar í báðar ættir, Ragnars-Brúnku frá Sauðárkróki. Móðir hans, Björk frá Litlu-Tungu, hefur sömu útgeislun. Þegar hún gengur í salinn þá fer ekkert á milli mála að prinsessan er mætt.

Bragi var valinn besta hestfolaldið af dómnefnd á Folaldafjöri í Ragnárhöllinni um helgina. Ræktandi og eigandi Vilhjálmur Þórarinsson. Bregi var einnig kosinn glæsilegasta folaldið af áhorfendum. Hann er eins og áður sagði undan Björk frá Litlu-Tungu, Spunadóttur frá Miðsitju, og Álfi frá Selfossi. Álfur virðist ætla, eins og Orri faðir hans frá Þúfu, að gefa innan um léttbyggð og glæsileg hross, þótt þeir feðgar teljist ekki til slíkra sjálfir í útliti.

Á Folaldafjöri kom fram úrval hrossa af folaldasýningum á Suðurlandi frá því í haust. Nokkrir úrvalsgripir voru í þeim hópi. Lön frá Skák var valin besta merfolaldið. Hún er undan Ramma frá Búlandi og Skák frá Staðartungu. Ræktandi og eigandi Ólafur Örn Þórðarson. Stórglæsilegt folald, háfætt og léttbyggt.

Í öðru sæti merfolalda var Fjóla frá Kjarnholtum. Verulega álitlegt folald undan Frumherja frá Kjarnholtum og Heru frá Kjarnholtum. Ræktandi og eigandi Magnús Einarsson. Í öðru sæti hestfolalda var Árelíus frá Hemlu II. Hann er undan Ágústínusi frá Melaleiti og Gná frá Hemlu II. Ræktendur og eigendur Lovísa H. Ragnarsdóttir, Vignir Siggeirsson og Þorbergur Vignisson. Virkjamikið folald í hreyfingum og útliti. Vavalítið efni í áberandi keppnishest. Nánar verður fjallað um folöld og ræktendur í jólahefi Hesta&Hestamanna.