miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óumdeildar framfarir

7. apríl 2014 kl. 11:49

Námskeiðið var fjölsótt kynbótadómurum. Mynd: Guðmundur B. Eyþórsson.

Endurmenntunarnámskeið kynbótadómara á Hólum.

Endurmenntunarnámskeið fyrir alþjóðlega kynbótadómara var haldið á Hólum í lok mars, í samstarfi háskólans og ræktunarnefndar FEIF.  Dagskráin var  fjölbreytt og samanstóð annars vegar af ráðstefnuhluta með vísindaerindum og umræðum og hins vegar verklegri samræmingu dómstarfa. Sveinn Ragnarsson stýrði ráðstefnunni en erindi fluttu Guðrún Stefánsdóttir, Elsa Albertsdóttir, Eyþór Einarsson og Þorvaldur Kristjánsson.

Í erindi sínu fjallaði Guðrún um líkamlegt álag á hross í kynbótasýningum, Elsa ræddi um þróun kynbótamatsins og samræmi í dómsniðurstöðum milli sýninga, erindi Eyþórs snerist um regluverk og verklag á kynbótasýningum og Þorvaldur veitti dómurum innsýn í þrívíddartækni við mat á byggingu hrossa og tengsl skrokkmála við reiðhestshæfileika.  

Á laugardeginum var ráðstefnan brotin upp með verklegri lotu í samræmingu dómaranna þar sem farið var yfir verklag og áherslur í dómum.

Góður rómur var gerður að námskeiðinu sem var með enn frekara vísindayfirbragði en áður. Mikilvægi námskeiðs af þessu tagi fyrir samræmi og framfarir í kynbótadómum er óumdeilt og kom fram skýr vilji þátttakenda á því að halda viðburði af þessu tagi árlega en ekki annað hvert ár eins og verið hefur.  

 Frétt af vef Hólaskóla.