miðvikudagur, 18. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ótrúleg breidd

odinn@eidfaxi.is
12. júní 2019 kl. 10:17

Draupnir frá Stuðlum

Vonandi heldur þessi þróun áfram um ókomin ár, en við höfum verið svo gæfusöm að eiga innan okkar raða fólk bæði lærða og leikna sem hafa verið framsýnir.

Nú eftir frækinn sigur okkar manna í fótboltanum er mikið rætt um liðsheildina þar á bæ og varð mér því hugsað til heildarinnar hjá okkur í hestamennskunni. Það sem fyrst og fremst hefur breyst á undanförnum árum er sú ótrúlega breidd og vítt litróf sem greinin okkar býr fyrir. 

Svo virðist sem framþróun greinarinnar sé langt frá því að staðna eða stöðvast og drifkrafturinn er hin aukna þekking okkar að viðfangsefninu. Hvað varðar reiðmennskuna þá ræddi ég stuttlega við Herbert Ólafsson á kynbótasýningu um daginn og undraðist hann hve mikið væri orðið af frábærum knöpum hér heima á Fróni, en Herbert hefur verið búsettur í Þýskalandi undanfarna áratugi. Sagði hann það áberandi hve mikil breiddin væri hér heima samanborðið við á meginlandinu. Þessi þróun hefur verið jöfn og örugg en drifkraftur þróunarinnar er klárlega það góða starf sem unnið hefur verið á Hólum í Hjaltadal. Þekking þeirra sem sótt hafa nám þar hefur svo verið að miðlast út til annarra bæði atvinnuknapa og áhugafólks. Þetta sést vel á því framboði sem er á námskeiðum og framtaki eins og reiðamanninum sem vinsælt hefur verið meðal áhugasamra áhugaknapa. Þetta hefur verið mjög ánægjuleg þróun sem gaman hefur verið að fylgjast með og segja má að þekkingin hafi á undanförnum árum síast jafnt og þétt út í greinina. 

Þetta sama má segja um almenna umhirðu hestsins bæði í fóðrun og járningum. Stór hluti hestamanna láta faglærða járningamenn sjá um járningar og óhestvænar járningar, pottaðar skeifur og fúsk í hófhirðu er orðin sjaldséð sjón. Sama þróun hefur orðið í hnökkum og öðrum reiðtygjum. Hér áður voru oft 2-3 gerðir hnakka sem í boði voru en í dag er breidd hnakkgerða, undirdýna, méla og annars búnaðar orðin þannig að erfitt er að hafa yfirsýn yfir þá flóru. Með þessu ættu allir knapar og hestar  að finna hnakk og reiðtygi sem passa sem allra best. 

Þessar undirstöður hafa svo styrkt stoðirnar undir ræktuninni en sú framför sem verið hefur í ræktunni kæmi verr fram ef umhverfisþættir eins og tamningar, járningar og fóðrun hefði ekki fylgt með eins og raun hefur verið á. Sem dæmi þá fullyrða sumir að við það eitt að bæta heyskapartæknina og innleiða rúllutækni í stað þurrheysbagga hafi hesturinn bæði stækkað og fríkkað. Þetta kemur þá til af því að uppeldi tryppa og fóðrun hrossa hefur við þessa breytingu batnað. Mikið er af góðum hryssum í ræktunni hér heima og þegar þær eru svo leiddar undir þá frábæru stóðhesta sem eru nánast í offramboði fleygir gæðum hrossa fram. Það sem er samt breytt frá því sem var er úrval stóðhesta. Hér áður fyrr voru nokkrir kóngar sem báru höfuð og herðar yfir aðra en í dag er það ekki svo. Til að fá athygli á hverjum tíma þurfa gripir að vera fram úr skarandi á einhvern hátt og þurfa að vera „sætasta stelpan á ballinu." Í þessum stóra hópi stóðhesta er það æ erfiðara. Þetta þýðir að hestur sem hefði vakið athygli fyrir tíu til fimmtán árum síðan gerir það ekki í dag því að aðrir eru einfaldlega betri og flottari.  

Þessi framför bestu hrossanna hefur nú á síðustu árum verið að koma inn í ræktunina og bæta hestakost hins almenna reiðmanns. Þekking hins almenna hestamanns hefur líka tekið stórstígum framförum og með aukinni þekkingu allra þeirra sem halda hross og njóta þeirra færist greinin heilt yfir fram á við. Þetta er því allt tengt og framför fremstu hrossa og knapa verður þess valdandi að viðmiðið breytast. Þetta sést glögglega á aðbúnaði hrossa á húsi þar sem hestamenn sjálfir án mikilla afskipta hafa stórbætt aðstöðu í hesthúsum, rýmkað stíur og nánast eytt út básum sem fyrir ekki svo löngu síðan þóttu fullgildir. 

Vonandi heldur þessi þróun áfram um ókomin ár, en við höfum verið svo gæfusöm að eiga innan okkar raða fólk bæði lærða og leikna sem hafa verið framsýnir. Þessir menn og konur hafa dregið vagninn sem hefur verið á fullri ferð og verður vonandi ekki stöðvaður í bráð.