föstudagur, 22. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ósannað hvenær smitið barst til landsins

15. mars 2011 kl. 15:25

Ósannað hvenær smitið barst til landsins

Enginn verður ákærður fyrir að hafa borið hingað bakteríu þá sem olli faraldri smitandi hósta í hrossum í fyrra...

„Smitið virðist hafa kraumað í hrossum í nokkurn tíma áður en faraldurinn braust út og því var ekki hægt að finna út hver bar það til landsins eða hvenær,“ segir Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma,ein fjögurra dýralækna sem unnu lokaskýrslu Matvælastofnunnar og Tilraunastöðvar HÍ á Keldum um faraldurinn.

Af skýrslunni má ráða að smitið hafi verið í gangi í a.m.k. 9 vikur áður en tilkynnt var um veikina og hugsanlega lengur. „Eins og fram kemur er talið líklegt að smitið hafi borist til landsins með notuðum beislisbúnaði en sjúkdómurinn smitast mjög auðveldlega með þeim hætti,“ segir Sigríður.

Þrátt fyrir að óheimilt sé að flytja til landsins notuð reiðtygi og ósótthreinsaðan reiðfatnað blasir við að á því hefur orðið misbrestur í gegnum tíðina eins og nýleg dæmi sanna. Margt bendir raunar til að smygl á notuðum mélum hafi verið að aukast mjög á seinni árum. „Af umræðunni má ráða að að keppnisfólk og atvinnumenn sem fara mikið á milli landa hafi oft í farteskinu einhver uppáhalds mél eða beisli. Þetta er ekki hægt að líða og leiðrétta verður þann útbreidda misskilning sem þarna virðist liggja að baki. Allt kapp verður lagt á að stöðva slíkan innflutning," segir Sigríður.

Eiðfaxi vill geta þess að viðurlög við broti á lögum 509/2004 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar berist til landsins varða sektum eða allt að 2 ára fangelsisvistar.