sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þórður truflar Friðinn

Jens Einarsson
29. júní 2010 kl. 10:26

Huginn frá Haga bætir í afkvæmahópinn

Huginn frá Haga bætir jafnt og þétt í afkvæmahópinn. Á kynbótasýningu á Gaddstaðaflötum í gær fór sonur hans Friður frá Miðhópi í góðan dóm og fékk 8,21 í aðaleinkunn. Hann er með 8,0 fyrir sköpulag og 8,35 fyrir kosti. Þar af 9,0 fyrir skeið.

Friður er ekki að koma í fyrsta sinn til dóms. Var sýndur tvisvar í fyrra og aftur í Víðidal í vor, en náði ekki fyrstu verðlaunum. Fyrr en nú að meistari Þórður Þorgeirsson settist í hnakkinn og „truflaði“ Friðinn.

Móðurætt Friðs er skemmtilega samsett. Þar eru afar og langafar Náttfari frá Ytra-Dalsgerði, Orri frá Þúfu og Gustur frá Sauðárkróki. Móðirin Þrinna er undan Sindra Orrasyni frá Högnastöðum, sem er undan Gerplu frá Högnastöðum, sem stóð efst í elsta flokki hryssna á LM1990 í Skagafirði. Náttfari er einnig afi í föðurætt og þar er móðurafi Gáski frá Hofstöðum.