miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þórður í níu mánaða keppnisbann

8. desember 2009 kl. 10:08

Klár í kynbótasýningar á næsta ári

Dómstóll ÍSÍ hefur kveðið upp dóm í máli Þórðar Þorgeirssonar gegn Aganefnd LH. Dómstóllinn fellst á kröfu Þórðar að stytta keppnisbannið og telur níu mánuða bann hæfilegt í stað tólf, samkvæmt dómi Aganefndar LH. Dómstóllinn fellst ekki á kröfu Þórðar um að málið verði ekki tilkynnt til FEIF.

Keppnisbannið gildir frá 3. ágúst, sem er upphafsdagur HM2009 í Sviss, þar sem agabrotið var framið. Þórður er því laus mála í byrjun maí þegar kynbótasýningar hefjast fyrir alvöru. Hann mun því geta stundað sína atvinnu og tekið þátt í þeim sýningum og dómum sem máli skipta á árinu. Þar með töldu Landsmóti 2010 og úrtökumótum fyrir það.

Þórður segist ekki hafa myndað sér skoðun á úrskurðinum. Hann hafi borist í gær. Þó sé ljóst að níu mánuðir séu betri kostur en tólf, sem honum hafi þótt býsna harkalegur dómur. „Annars er ég kominn í svo mikið jólaskap að það er ekki pláss fyrir þetta mál eins og er. Það er nóg að gera. Magnús Benediktsson er kominn í vinnu til mín aftur eftir nokkurra ára fjarveru. Það er mikill kraftur í honum. Það sest ekki ryk á nokkurn hlut þar sem hann er í vinnu,“ segir Þórður Þorgeirsson, sem var hress í bragði þegar H&H spjölluðu við hann í morgun.

Tekið skal fram að hægt er að áfrýja dómnum til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Ákvörðun um það verður tekin eftir að Aganefnd og stjórn LH hafa fjallað um málið.