þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Orkumikill og vinnusamur

30. júní 2014 kl. 07:30

Elin og Frami koma efst inn á Landsmót í B-flokki gæðinga.

Elin Holst og Frami frá Ketilsstöðum keppa í B-flokki í dag.

,,Ég byrjaði að temja Frama þegar hann var fjögurra vetra og hef þjálfað hann síðan. Hann er auðveldur og það er mjög gaman að þjálfa hann. Ég sá strax og fann að hann byggi yfir miklum gæðum,” segir Elin Holst sem er efst inn á Landsmót í B flokki á Frama frá Ketilsstöðum.

Elin, sem hefur verið á Íslandi í nær fimm ár, kemur frá Noregi og kynntist hún Olil Amble þar þegar Olil kenndi henni. Olil bauð Elinu að koma til Íslands og vinna fyrir sig og tók hún því. ,,Ég hafði ekki mikið verið að pæla í því að koma til Íslands en þegar Olil bauð mér vinnuna ákvað ég að slá til og sé ekki eftir því,” bætir Elin við, en hún eignaðist gæðinginn Frama þegar hann var fimm vetra gamall.

En hvernig er Elin stemmd fyrir Landsmótinu?

,,Ég verð að viðurkenna að ég er aðeins stressuð. Það er örlítil pressa að koma efst inn á mót. Ég er ekki með mikla keppnisreynslu og hef ekki keppt á svona stóru móti áður,” segir Elin en það kom henni á óvart hversu vel þeim Frama gekk í úrtökunni. ,,Mig hafði auðvitað dreymt um þetta en ég átti ekki samt von á þessu. Hann var góður og vissi ég að þetta væri möguleiki einhvern tíman en kannski ekki alveg svona fljótt,” segir Elin.

Elin sýndi Frama fyrir Landsmótið og komust þau einnig inn í kynbótadómi í flokki 7 vetra stóðhesta og eldri. Frami hlaut þar 8.35 í aðaleinkunn. Hann hlaut tvær 9.5 bæði fyrir fet og hófa og sex 9.0 fyrir tölt, brokk, stökk, vilja og geðslag, fegurð í reið og hægt tölt. ,,Hann er algjör gæðingur, orkumikill og hefur gaman af því að vinna,” segir Elin.