þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Orka frá Hvolsvelli

9. júní 2019 kl. 20:35

Viðja frá Hvolsvelli

Blaðagrein sem fjallar um þessa mögnuðu ræktunarhryssu

Afkomendur Orku frá Hvolsvelli hafa staðið sig vel á kynbótabrautinni í ár. Þar má nefna Viðju frá Hvolsvelli sem hlaut á dögunum 9,0 í einkunn fyrir hæfileika og Pensil frá Hvolsvelli sem var sýndur fjögurra vetra gamall og hlaut í aðaleinkunn 8,39.

Blaðamaður Eiðfaxa ræddi við eigendur og ræktendur Orku frá Hvolsvelli á síðastliðnu ári þau Ásmund Þór Þórisson og Helgu Friðgeirsdóttur og þykir okkur við hæfi að rifja upp þetta viðtal þar sem margt skemmtilegt kemur fram um uppruna Orku frá Hvolsvelli.

Undirstöðuatriði í hrossarækt er að eiga farsæla ræktunarhryssu, það eitt og sér dugir þó ekki til árangurs því para þarf merina á móti réttu stóðhestunum og þar reynir á glöggt auga og næmni ræktunarmannsins. Ásmundur Þór Þórisson og Helga Friðgeirsdóttir hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga slíka meri Orku frá Hvolsvelli, í þessari grein er farið yfir hennar sögu.

Ættarprýði

Orka er fædd árið 1992 og er því 26 vetra þegar þessi grein er skrifuð, hún er undan Hektor frá Akureyri sem var undan Hervari frá Sauðárkróki og Tinnu frá Akureyri. Móðir Orku er Litla-Kolla frá Jaðri sem að föðurinum er undan Glað frá Reykjum og móðirin Sörladóttirin Kolbrún frá Jaðri.
Kolbrún frá Jaðri er ræktuð af Ásmundi, undan Skjónu frá Jaðri. En hvernig byrjaði ræktun Ásmundar á þessum ættlegg „Skjóna frá Jaðri er ræktuð af afa mínum, Sigfúsi Jóhannessyni, en hún var mjög hátt dæmd meri á sínum tíma með 8,22 í aðaleinkunn. Hún fékk 1.verðlaun fyrir afkvæmi árið 1977. Ég fékk að halda henni og valdi á móti henni Sörla frá Sauðárkróki og út úr þeirri pörun kom Kolbrún frá Jaðri.“  
Kolbrún þessi eignaðist 10 afkvæmi og þar af eru 6 sýnd í kynbótadómi, hæstan kynbótadóm hlaut Litla-Kolla frá Jaðri í aðaleinkunn 8,06, en einnig er stór ættleggur útaf henni í gegnum son hennar Rektor frá Jaðri. Til hans má til að mynda reka Óm frá Kvistum sem hlotið hefur 1.verðlaun fyrir afkvæmi og stefnir hraðbyr í heiðursverðlauna nú á Landsmóti 2018. Ómur er undan Víglundi frá Vestra-Fíflholti sem er undan Emanon frá Vestra-Fíflholti en hún er undan Rektor. Af öðrum þekktum hrossum sem eiga ættir sínar að rekja til þessarar ættlínu er Skýr frá Skálakoti en hann má rekja til Skjónu frá Jaðri, Skýr er undan Vök frá Sálakoti en hún var undan Kvikk frá Jaðri sem var undan Skjónusyninum Blakk frá Jaðri. Einnig er Eldjárn frá Tjaldhólum náskyldur Orku þar sem hann er undan Heru frá Jaðri sem er undan Litlu-Kollu líkt og Orka.

Auðtamin

Orka var fyrst sýnd í kynbótadómi fjögurra vetra gömul á héraðssýningu á Gaddstaðaflötum. Hlaut hún þá 7,79 fyrir sköpulag, 7,54 fyrir hæfileika og í aðaleinkunnn 7,67 Ásmundur hafði séð um tamningu hennar um veturinn og sýndi hana sjálfur í kynbótadómi „Ég tamdi Orku sjálfur, eins og ég hef síðan gert með öll hennar afkvæmi. Hún var auðtaminn, viljug og næm. Þótt svo að hún sé sýnd sem klárhryssa þá var töltið opið frá byrjun og hún er AA hross að arfgerðarspá. Ég man eftir mjög skemmtilegu atviki þegar ég sýndi hana í kynbótadómnum en þá tilkynnti þáverandi hrossaræktarráðunautur, Kristinn Hugason, í hátalarakerfið, Ásmundur þú veist að þú færð ekki hátt fyrir fegurð í reið merin er alltof opin í kverkina hjá þér“. 

Orka hlaut 1.verðlaun í einstaklingsdómi sex vetra gömul, hlaut hún þá 8,03 fyrir sköpulag og 8,0 fyrir hæfileika í aðaleinkunn 8,01. Hún var sýnd sem klárhryssa og ber hæst einkunnin 9,0 fyrir tölt. Sýnandi hennar var Gunnar Arnarsson. En hvernig kom það til að Gunnar sýndi hana „Það atvikaðist þannig að ég fór með Orku á Fákssýninguna veturinn 1998 í afkvæmahóp með Hektor. Sömu helgina var farið á Ístölt í Reykjavík, þar sem gleðin var við völd, og var á því kvöldi ákveðið að merin yrði eftir hjá Gunnari og hann myndi sjá um að sýna hana um vorið. Sem hann og gerði og sýndi hana til fyrstu verðlauna“.

Afkomendur í fremstu röð

Orka á alls 16 afkvæmi fædd á árunum 1999-2016 af þeim eru 12 sýnd í kynbótadómi og 9 þeirra hafa hlotið 1.verðlaun. Meðaleinkunn afkvæma hennar eru 8,12 fyrir sköpulag, 8,12 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,12. Hæst dæmda afkvæmið er Harpa-Sjöfn frá Hvolsvelli dóttir Mjölnis frá Hlemmiskeiði. Harpa-Sjöfn hlaut sinn hæsta dóm árið 2017, þá sýnd af Bjarna Jónassyni, 8,63 fyrir sköpulag, 8,78 fyrir hæfileika í aðaleinkunn 8,72. Ásmundur og Helga seldu hana árið 2016.
En hvað hafa ræktendurnir helst í huga þegar valdir hafa verið stóðhestar á móti Orku „Við höfum alltaf reynt að velja á móti henni hesta sem við höfum séð og höfum við haft ofarlega í huga að velja á móti henni mjúka, alhliða genga hesta sem heilla okkur á brautinni“. Eins og áður hefur komið fram er Orka ekkert unglamb en hefur alla tíð verið heilsuhraust og alltaf fyljast og kastað án vandkvæða fyrir utan eitt skipti þegar hún lét fangi. „Orka hefur verið okkur ákaflega farsæl hún hefur þó ekki fest fang síðastliðinn 2 ár. Hún hefur verið hraust í allan vetur og ber aldurinn vel, ef guð og lukkan leyfir reynum við að halda henni í vor og ætli það verði ekki í síðasta skipti en hún fer undir Pensil frá Hvolsvelli sem er undan Hörpu-Sjöfn og Ölnir frá Akranesi“.

Ekki hlotið afkvæmaverðlaun

Þrátt fyrir yfirburði Orku sem afkvæmahryssu hefur hún ekki hlotið afkvæmaverðlaun, kynbótamat hennar hefur aldrei náð þeim lágmörkum sem hryssur þurfa að hafa en það er 116 stig í aðaleinkunn kynbótamats og 5 dæmd afkvæmi. Orka er með 109 stig í aðaleinkunn kynbótamats en hefur að sjálfsögðu náð lágmörkum fyrir dæmd afkvæmi og töluvert betur en það. „Ég skal alveg viðurkenna að þetta hefur einstakasinnum pirrað mig og þá sér í lagi að Orka hefur lækkað í kynbótamatinu frekar en að hækka þrátt fyrir gott gengi afkvæma sinna. Það er þó þannig að þetta skiptir ekki máli í stóra samhenginu, Orka hefur reynst okkur vel og við erum stolt af henni og hennar afkvæmum“.

Þó svo að Orka sé orðinn fullorðinn eru Ásmundur og Helga með fjórar dætur hennar í ræktun en þær eru Frigg, Vordís, Glódís og Framtíð. Framtíðin er því björt hjá þessu fyrirmyndar hestafólki austur á Hvolsvelli og óskar Eiðfaxi þeim velfarnaðar á komandi árum og þakkar þeim fyrir spjallið.