þriðjudagur, 19. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óraunsæ fækkun hrossa milli ára

7. október 2014 kl. 13:09

Tölur um hrossaeign í landinu fór úr 77 þúsund í 54 þúsund.

Tölur um hrossaeign ársins 2013 víkja verulega frá fjöldatölum liðinna ára samkvæmt tölum sem Matvælastofnun (MAST) birti nýlega, og má m.a. nálgast á Datamarket. Bændablaðið greinir frá þessu. MAST ber ábyrgð á búfjáreftirliti og söfnun upplýsinga um bústofn og forða í dag, en verkefnið fluttist frá Bændasamtökum Íslands fyrir nokkrum árum síðan. Hrossum fækkar um meira en 20 þúsund á milli ára, eða úr um 77 þúsund í 54 þúsund miðað við þær tölur sem MAST hefur birt. Þessar tölur byggja á forðagæsluskýrslum sem eigendur hrossa skiluðu inn haustið 2013, en ekki á vorskýrslum frá búfjáreftirlitsmönnum sveitarfélaga síðastliðið vor eins og hefur tíðkast í áraraðir. Í Bændablaðinu er haft eftir fulltrúa MAST að vegna fjárskorts þá hafi stofnunin ekki getað viðhaft hefðbundið voreftirlit, sem sé reyndar ekki lengur lögbundið. Áður hafi búfjáreftirlitsmenn sveitarfélaga safnað upplýsingum m.a. um hrossaeign í þéttbýli og skráð inn í opinberan gagnagrunn um bústofn en það heyrir til undantekninga að hrossaeigendur í þéttbýli skili forðagæsluskýrslu, enda hafi verið gert ráð fyrir að búfjáreftirlitsmenn safni þessum upplýsingum að vori. Með lagabreytingu frá Alþingi hafi þetta verið aflagt, og fjármagn hafi ekki verið tryggt til MAST til að taka við þessu hlutverki af sveitarfélögunum, að sögn MAST.

Bændablaðið birtir einnig yfirlýsingu frá Sverri Þ Sverrissyni, sérfræðingi frá MAST, og Jóni Baldri Lorange, verkefnisstjóra hjá Bændasamtökum Íslands, en þar segir frá vinnu sem hafin sé að beiðni MAST til að bregðast við þessari stöðu. Þar segir m.a.: ,,Á liðnum árum hafa búfjáreftirlitsmenn safnað tölum um hrossaeign eftir að hross hafa verið tekin á hús þ.e.a.s á tímabilinu janúar til mars. Fjöldatölur hrossa hafa því komið fram með vorgögnum. Með breytingu á lögum um búfjárhald nr. 38/2013, sem tók gildi um síðustu áramót, færðist búfjáreftirlit sveitarfélaga til Matvælastofnunar. Eftir lagabreytinguna er hefðbundin vorskoðun ekki áskilin í lögum. Því er nauðsynlegt að tölur um hrossaeign komi fram með haustskýrslum (forðagæsluskýrsla) sem umráðamönnum búfjár er skylt að skila til Matvælastofnunar. Áríðandi er að eigendur/ umráðamenn hrossa skili haustskýrslum en þeim má skila með rafrænum hætti. Eins er mikilvægt að hrossaeigendur yfirfari skráningar í heimarétt WorldFengs um afdrif og merkingar hrossa sinna, en allir félagar í Landssambandi hestamannafélaga og Félagi hrossabænda hafa frían aðgang að World-Feng".