miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Opinn umræðufundur um málefni FEIF

7. janúar 2011 kl. 12:55

Opinn umræðufundur um málefni FEIF

Jens Iversen formaður FEIF, alþjóðlegra samtaka Íslenska hestsins, er væntanlegur til Íslands og mun hann sitja fundi með forystufólki samtaka hestamennskunnar til þess að ræða málefni FEIF...

Eiðfaxi hafði samband við Harald Þórarinsson formann LH og forvitnaðist meira um málið:
„Já, Jens er væntanlegur og mun hann meðal annars sitja opinn umræðufund þann 17.jan næstkomandi“
Hvaða mál verða til umræðu?
„Það verða ýmis málefni FEIF. Núna er verið að fara yfir og uppfæra alla stjórnsýslu FEIF, gera hana gegnsærri ef svo mætti segja. Til dæmis hafa skipanir fólks í stöður og nefndir innan FEIF alltaf verið gerðar án þess að óskað hafi verið eftir tillögum frá aðildarlöndum, heldur hafa nefndir og stjórn alltaf haft frumkvæði um skipan mála.
Auka þarf upplýsingaflæði um starfið allt þannig að fólk sé meira meðvitað um það hvað er í gangi á hverjum tíma og svo er það að sjálfsögðu fleira. Jens mun segja frá þessu starfi á fundinum“
Er Landsmót 2011 til umræðu?
„Einhver umræða er úti í Evrópu um það hvort að við ætlum að fara að halda landsmót á hverju ári og hafa einhverjir af því áhyggjur. Stjórn FEIF hefur hinsvegar áhuga á að FEIF verði meira tengt landsmótunum þannig að þau verði viðurkennd sem „FEIF viðburðir“ þetta mál mun Jens einnig kynna á þessum væntanlega fundi“ sagði Haraldur.
Er einhver umræða í gangi innan FEIF um sjúkdóminn sem reið hér húsum?
„Já, það hefur verið í gangi þónokkur umræða um það og til dæmis hafa komið fram yfirlýsingar um það hvernig skuli standa að móttöku hesta okkar á heimsleikum. Halldór Runólfsson skrifaði gott bréf til stjórnar FEIF þar sem hann fer yfir málið og eyddi bréfið öllum misskilningi hjá þeim sem það var kynt.  Þörf er á að uppfræða erlenda Íslandshestaheiminn allan meira um niðurstöður rannsókna og hvað við vorum að fást við. Eyða þarf allri tortryggni í þessu máli. Það er mjög slæmt að ennþá skulu ákveðnir dýralæknar vera að flytja röng skilaboð til umheimsins og draga upp ranga mynd af málinu. Það þarf að stoppa“.
Hinn opni umræðufundur sem haldinn verður mánudaginn 17.jan. verður betur auglýstur síðar og hvetur Eiðfaxi hestafólk til þess að fjölmenna á fundinn.