miðvikudagur, 20. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þörf á samstarfi

1. apríl 2014 kl. 19:05

Katla frá Ketilsstöðum á Fjórðungsmótinu á Austurlandi 2013

Opið bréf til hestamanna á Norður- og Austurlandi

Fjórðungsmót Austurlands var haldið í sumar og var frekar dræm mæting á mótið. Mótið tókst þó vel og skemmtu áhorfendur sér konunglega. Hér fyrir neðan birtist pistill frá Einari Ben, formanni hestamannafélagsins Freyfaxa. 

"Ég vil þakka Hestamannafélaginu Hornfirðing fyrir gott og vel skipulagt Fjórðungsmót í Hornafirði sem nú er nýlokið. Eftir að hafa rætt við knapa og áhorfendur veit ég að skipuleggjendur og starfsmenn eiga hrós skilið fyrir góða framkvæmd. Það var frábær skemmtun fyrir mig persónulega að fylgjast með úrslitum mótsins í góðu veðri á sunnudag.

Fjórðungsmótin eru hugsuð sem lyftistöng fyrir hestamennskuna á þeim landssvæðum sem landfræðilega eru afsíðis og auka hróð hestamennsku á þeim svæðum. Einnig er þeim ætlað að vera að vera kynningargluggi fyrir hross af svæðinu. Fjórðungsmótin hafa því í gegnum tíðinu verið kærkomin lyftistöng þegar þau hafa verið haldin, og þjappað fólki saman um stóra framkvæmd.

Fjórðungsmót okkar austfirðinga á því miður undir högg að sækja. Fremur dræm aðsókn áhorfenda, fjöldi kynbótahrossa á mótinu og lítill fjöldi keppenda af Norðurlandi hlýtur að vera okkur sem erum í forsvari fyrir hestamannafélögin á svæðinu áhyggjuefni. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að framtíð Fjórðungsmóta á Norður- og Austurlandi ræðst af því samstarfi sem við í hestamanna- og hrossaræktarfélögum á svæðinu getum náð nú í framhaldinu. Það er mín skoðun að félögin á svæðinu verða að sameinast um framkvæmdina og standa að henni öll sem eitt, í því liggur stórt tækifæri. Samvinnu fylgja einnig sameiginlegar ákvarðanir og ábyrgð.

Fyrst ég er sestur niður við skriftir verð ég að taka fram að það er afar óheppilegt að halda tvö fjórðungsmót á árinu 2013. Þrátt fyrir að vera ekki á sömu helgi, er augljóst að annað fjórðungsmótið hefur orðið ofan á. Það er vonlaust fyrir einstaka knapa með fjölda hrossa að reyna sig á kynbótasýningum, úrtökumótum fyrir HM, gæðingakeppnum, tveimur Fjórðungsmótum og Íslandsmóti á skömmum tíma. Eitthvað verður undan að láta. Í mínum huga var það fyrirséð að FM á Austurlandi myndi eiga á brattann að sækja varðandi aðsókn, m.a. af þessum ástæðum. Fjöldi hrossa hefur stór áhrif á aðsókn. Á vetrarmánuðum hafði ég m.a. beðið formann Landsambandsins að skera á þann hnút sem okkur Héraðsmönnum fannst hafa myndast með tveimur Fjórðungsmótum á sama ári. Því miður tók stjórn Landssambandsins enga ábyrgð á málum landsbyggðarinnar, eftir að hafa sjálf sett Landsmót yfir fyrirhugað FM á Austurlandi árið 2011 og aflýst því án nokkurs samráðs. Hafi formaður Landssambands Hestamanna heila skömm fyrir frá mér að ganga ekki frá lausum endum eftir ákvarðanir sem voru óumflýjanlegar í kjölfar fjöldaveiki hrossa í landinu.

Næsta Fjórðungsmót á Austurlandi verður haldið 2015, eftir rétt um tvö ár. Ég hef þá einlægu von að við hestamannafélögin á svæðinu tökum höndum saman og myndum með okkur öflug samtök um framkvæmd Fjórðungsmóta framtíðarinnar, þar verða Hrossaræktarfélögin einnig að koma sterk inn til samstarfs.

Ég lýsi mig reiðubúinn að hafa forgöngu um að forsvarsmenn Hestamanna- og hrossaræktarfélaga hittist á haustmánuðum til að ræða framtíð Fjórðungsmóta á Austurlandi, og hvernig því næsta verður háttað árið 2015.

Tökum höndum saman!"
Einar Ben Þorsteinsson, formaður hestamannafélagsins Freyfaxa. (gleraugun@simnet.is)