sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ómetanlegt tjón fyrir Freyju á Votmúla-

9. júní 2011 kl. 15:36

Ómetanlegt tjón fyrir Freyju á Votmúla-

„Ég var að keyra á 80 km hraða á beinum vegi. Ég get ekki útskýrt hvernig stendur á því að kerran flaug aftan úr bílnum. Það tók aldrei í bílinn, öryggiskeðjan hefur slitnað strax. Hvorki sér á kúlunni né kerrunni. Splittið er enn í og læsingin virkar. Kúlan er rispuð en heil. Ég kann enga skýringu á hvað hefur gerst,“ segir Freyja Hilmarsdóttir í Votmúla sem lenti í hörmulegu umferðaróhappi á mánudagskvöldið á Suðurlandsvegi rétt austan við Ingólfshvol. Hún var á leið heim með tvo stóðhesta, þá Styrk og Jóstein frá Votmúla, eftir að hafa sýnt þá á Héraðssýningu Vesturlands á Mið-Fossum.

Styrkur slasaðist alvarlega í slysinu og varð að aflífa hann á staðnum. Jósteinn lifði, en þrír hryggjatindar framan á herðum eru brotnir. „Hann er stokkbólginn á herðunum en hann ber sig nokkuð vel. Það er lítil þekking á áverkum á þessum svæðum, t.a.m. er nýfarið að mynda þau. Nú þarf hann að standa í sex vikur og svo verðum við að sjá hvað verður gert í framhaldi,“ segir Freyja. Aðspurð segir hún báða hestana vera líftryggða en hið tilfinningalega tjón sé ómetanlegt. Hinn fallna gæðing hafði hún bæði ræktaði og tamið. „Styrkur var að ná sér eftir meiðsl sem höfðu hrjáð hann síðan hann var ungur. Búið var að meðhöndla þau og í vetur var hann á mikilli uppleið. Hann var að verða svo vígalegur og ég sá það fyrir mér að hann myndi springa út og blómstra á næsta ári. Margir voru farnir að sýna honum áhuga. Þetta er sorglegt og sárt, hestarnir eru eins og börnin  mín.“

Freyja segist finna fyrir miklum hlýhug frá fólki bæði hérlendis sem erlendis og vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa sýnt henni samúð.